140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Áður en ég fjalla efnislega um málið vil ég byrja á því að taka undir það sem kom fram í andsvörum á milli tveggja hv. þingmanna. Ég tel mjög eðlileg vinnubrögð að umhverfis- og samgöngunefnd komi að umfjöllun málsins einnig því að það er með svo mörg mál, hvort heldur sem það er þetta eða jafnvel næsta mál á dagskrá. Mér finnst fólk oft forðast gagnrýna umræðu, þ.e. að hlusta hvert á skoðanir annars og vega og meta stöðuna eftir það, þess í stað setur það sig í ákveðnar stellingar og reynir jafnvel að stýra málum þannig að þau fari frekar í einn farveg en annan vegna hugsanlegra skipana hv. þingmanna í nefnd. Þar sem þessi tillaga snýr klárlega að umhverfismálum finnst mér mjög eðlileg vinnubrögð að umhverfis- og samgöngunefnd komi að umfjöllun málsins í meðförum þingsins.

Ég tel mikilvægt að við viðhöfum fagleg vinnubrögð á Alþingi þó að ég sé ekki sammála mörgum sem þar sitja og þeim áherslum sem þar eru, en það skiptir ekki máli. Ég hef alltaf litið þannig á að ef maður hlustar eftir röksemdum annarra þá tekur maður a.m.k. upplýstari ákvörðun. Þegar teknar eru stórar ákvarðanir í þessum málum eða einhverjum öðrum hefur mér persónulega alltaf liðið betur ef ég hef hlustað eftir þeim rökum sem fólk hefur sem er ekki sammála mér um niðurstöðu málsins. Ég hef yfirleitt reynt að hlusta og taka eftir og ræða málið faglega.

Ég tek undir það sem kom fram í andsvörum áðan milli tveggja hv. þingmanna að það er mjög mikilvægt þar sem þetta mál fellur klárlega undir verksvið hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem umhverfismál að taka umræðuna samhliða þar.

Þá kem ég að því sem við stöndum frammi fyrir núna. Við erum að fá þetta mál núna þegar mánuður er eftir af þinginu, um 18 eða 19 þingdagar, sem eru að mínu viti ekki boðleg vinnubrögð — ég segi bara eins og er. Atvinnuveganefnd situr núna með mjög stór mál þessu til viðbótar, frumvörp til breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, ein þrjú held ég að þau séu fyrir utan veiðileyfagjaldið, þannig að ég hef verið að hugsa það undir þessari umræðu, hvaða skoðun sem maður svo hefur á endanlegri niðurstöðu þessarar þingsályktunartillögu, hvort það væri í raun og veru skynsamlegt að þingið tæki sig saman og segði sem svo að setja skyldi málið í vandaðri og betri meðferð þannig að umhverfis- og samgöngunefnd kæmi líka að því og afgreiða mætti þessa rammaáætlun jafnvel í haust. Ég hef verið að hugsa það undir þessari umræðu því að ég er eiginlega hræddur við þá málsmeðferð sem gæti orðið á lokaspretti þingsins og gæti boðið upp á það að menn mundu ekki vanda sig eins og skyldi vegna tímaskorts, ekki vegna vilja heldur vegna þeirrar stöðu sem hv. nefndir eru settar í. Ég velti því alvarlega fyrir mér og spyr: Mun það breyta einhverju? Ég veit það ekki. Mun það breyta einhverju um framkvæmd á tillögunni í heild sinni, þ.e. áætluninni? Ég geri mér ekki grein fyrir því en ég tel að það væri umhugsunarvert fyrir þingið að afgreiða þetta í byrjun hausts í staðinn fyrir núna á lokasprettinum. Það gæti held ég kallað á betri og vandaðri vinnubrögð þótt það afsaki ekki stjórnarflokkana að koma með þetta stóra og mikilvæga mál svona seint inn. Auðvitað þarf að fara yfir allar þessar umsagnir og ég geri ekki athugasemd við að menn vinni það faglega, en ef málið hefur tafist vegna þeirrar faglegu vinnu sem það var sett í hlýtur það að færa endapunktinn til líka. Það má ekki gerast að við þurfum að klára þetta í einum spreng.

Ég vænti þess og óska eftir því að fjallað verði um málið án þess að vera með upphrópanir og læti, yfirvegað, málefnalega, hvort skynsamlegt sé að draga umhverfis- og samgöngunefnd að málinu, fá meiri samstöðu og faglegri vinnubrögð. Ég hvet hv. stjórnarliða sem ráða meiru um það en ég að taka það til alvarlegrar umhugsunar.