140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir þessi sjónarmið. Það blasir við þegar við erum að fara í virkjanir, ef á að virkja háhitasvæði, að miklu fleiri spurningum er þá ósvarað en þegar við förum í vatnsaflsvirkjanir. Auðvitað höfum við eðli málsins samkvæmt miklu nákvæmari niðurstöður um það hvað viðkomandi virkjun muni leiða af sér. Miklu fleiri spurningar og miklu fleiri áhættuþættir snúa að jarðhitanum, það liggur fyrir.

Ég var að horfa á fréttir í gærkvöld, held ég frekar en í fyrrakvöld, þar sem var viðtal við Ómar Ragnarsson fréttamann, sem er mikill náttúruverndarsinni og hefur haft ýmsar skoðanir á því og komið til okkar mikilvægum upplýsingum þótt ég sé auðvitað ekki sammála honum í öllu því sem fram hefur komið. Ég verð að viðurkenna að mér brá dálítið þegar hann benti á það sem ætti að gera á ákveðnu svæði á Reykjanesi og hann benti á aðra möguleika, að menn ættu að skoða þá.

Ég tek undir að við eigum að fara varlega. Við vitum að ef við förum í rennslisvirkjanir er náttúrlega hægt að taka til baka þær framkvæmdir ef í ljós kemur að þær hafa alvarlegar afleiðingar en það er öllu verra að eiga við háhitann. En það vekur óneitanlega athygli að í þessari þingsályktunartillögu eru einungis tvær vatnsaflsvirkjanir af öllum þeim virkjunarkostum sem uppi eru og mikið af háhitasvæðunum er lagt til. Án þess að ég geri lítið úr þeirri faglegu vinnu sem unnin var af verkefnisstjórninni þá vekur þetta auðvitað spurningar ef (Forseti hringir.) hv. þingmenn eru sammála um það sem fram hefur komið um háhitasvæðin.