140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:11]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér þykir mjög jákvætt það sem fram hefur komið í máli hv. þingmanns um að við eigum að fara af varkárni hvað varðar háhitasvæðin. Staðreyndin er sú að það erum við ekki að gera. Þess vegna verðum við að hugsa okkar gang í þeim efnum. Það er mjög mikilvægt, algerlega óháð allri flokkspólitík, að við sem ábyrgir Íslendingar hugsum vel um auðlindir okkar og förum ekki í ósjálfbæran námugröft.

Mig langaði líka að inna hv. þingmann eftir því hvernig hann metur hluti eins og ósnortin víðerni. Nú hefur það komið fram að víðerni Íslands hefur minnkað um 68% frá 1936–2010 og stefnir í að minnka með nokkru hraði ef svo fer fram sem horfir. Er hv. þingmaður sammála því að mikil verðmæti séu fólgin í ósnortnum víðernum og að ósnortin víðerni rétt við rætur höfuðborgarinnar séu einstök verðmæti á heimsvísu?

Mig langar líka að inna hv. þingmann eftir því hvernig hann metur landslag. (Gripið fram í.) Nú hefur t.d. komið fram í alþjóðlegri rannsókn að Íslendingar meta landslag mun meira en ýmsar aðrar Evrópuþjóðir þegar kemur að náttúrufari. Líka hefur komið fram gagnrýni á að það vanti mun ítarlegri og betri rannsóknir á landslagi fyrir það sem við erum að gera, m.a. í rammaáætlun. Tekur hv. þingmaður undir það að við eigum að reyna með vísindalegum og (Forseti hringir.) margvíslegum hætti að meta betur landslag og passa okkur á að skerða það ekki um of?