140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nokkrir hv. þingmenn hafa komið fram og talað um nýjar upplýsingar í sambandi við fiskgengd og laxveiði. Nú langar mig að spyrja, af því að hv. þingmaður minntist á það, hvaða nýju upplýsingar þetta eru. Eftir því sem ég best hef heyrt hafa forstjóri Landsvirkjunar og Veiðimálastofnun vísað til þess að þær séu ekki nýjar og hafi legið fyrir lengi en áhugavert væri að heyra álit þingmannsins á því.

Varðandi Hagavatnsvirkjun þá er ég reyndar ósammála málflutningi hv. þingmanns í því. Hv. þingmaður sagði að hann væri á móti öllum virkjunum á hálendi Íslands. Hann er líka kominn í það að vilja ekki virkja Urriðafoss og er efins um hinar tvær í neðri hluta Þjórsár. Á síðustu árum hefur gætt vaxandi efa á að við séum á réttri leið varðandi jarðvarmavirkjanir en við þekkjum hins vegar reynsluna af vatnsaflsvirkjunum. Þær eru þarna fyrir hendi og meira að segja hefur verið sýnt fram á það í öðrum löndum að þegar þær eru teknar burtu þá er lífríki þess svæðis ótrúlega fljótt að jafna sig. Þær eru því ekki óafturkræfar heldur þó svo því hafi verið haldið fram.

Nú bráðna jöklarnir hratt og þrátt fyrir að ýmsir hafi haldið því fram að við eigum að geyma vatnið handa komandi kynslóðum þá efast ég um að það sé hægt. Ef þeir bráðna á 50–100 árum eins og svörtustu spár sýna fram á mun það vatn ekki skapa nein verðmæti fyrir komandi kynslóðir nema við látum þau verðmæti verða til núna á meðan vatnið er að renna til sjávar. Ég vil því að lokum spyrja hv. þingmann hvaða virkjanir hann vilji að farið verði í, hvort hann vilji fyrst og fremst fara í jarðvarmavirkjanirnar. Mér finnst nefnilega ansi fáar vatnsaflsvirkjanir vera eftir, ég tala ekki um ef uppi eru hugmyndir um að fara að virkja til að selja rafmagn til Evrópu gegnum sæstreng.