140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Ég vek athygli á því, frú forseti, að það kom ekkert svar við þeirri spurningu minni til hv. þingmanns hvort hv. þingmaður gæti nefnt einhverja virkjun, einhverja þá orkuframkvæmd sem ráðist hefur verið í, þar sem ekki hafa verið uppi efasemdir, varúðarsjónarmið og spár um að ýmislegt gæti farið úrskeiðis varðandi náttúruvernd eða um áhrif virkjananna á náttúruna og umhverfi sitt.

Hvað varðar eignarnámið er það mjög viðkvæmt mál. Ég tek undir það með þingmanninum. Ég hef áður tjáð mig um þetta og ég er þeirrar skoðunar að eignarnámsheimildirnar séu fullvíðar. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að ef grípa eigi til slíkra eignarnámsheimilda þurfi að rökstyðja það með mjög brýnum almannahagsmunum og ég er þeirrar skoðunar að slíkar heimildir eigi ekki að vera hjá framkvæmdarvaldinu. Ég tel að það verði að koma inn í Alþingi sem setji þá um það sérstök lög í hvert sinn sem slíkum heimildum er beitt. Með því að beita eignarnámsheimildum er gengið mjög hart fram gegn eignarréttindum manna, eignarréttindum á náttúruauðlindum.

Margir hv. þingmenn stjórnarliðsins eru ekkert sérstaklega hrifnir af séreignarrétti á náttúruauðlindum en ég er ekki í þeim hópi og tel að ef á að rjúfa slíka séreign, hvort sem er á landi, orkuauðlindum eða öðrum auðlindum, þurfi að fara fram af ýtrustu varkárni og það þurfi að rökstyðja það með mjög ríkum almannahagsmunum. Um þetta hef ég tjáð mig áður og þess vegna tel ég að eitt af því sem þurfi að gera sé að breyta fyrirkomulaginu, taka það vald frá framkvæmdarvaldinu og setja það inn í þingið. Það að fara gegn eignarréttindum manna er það viðurhlutamikil ákvörðun að þá þarf sérstök lög til en ekki almenna opna heimild hjá framkvæmdarvaldinu. Ég held að það væri líklegra til að ná fram sátt og þá stæðu líka hv. þingmenn frammi fyrir slíkum ákvörðunum og þyrftu með atkvæði sínu að segja já eða nei.