140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ef ég byrja á síðustu spurningunni fyrst þá tel ég að sjálfsögðu að við eigum að vanda okkur eins og við mögulega getum við meðferð málsins og vinna þetta saman eins og hv. þingmaður kom inn á fyrr í dag.

Ég ætla ekkert að segja til um það núna hvort við þurfum meiri tíma og því eigi að afgreiða þetta næsta haust frekar en í vor. Það verður hreinlega að koma í ljós eftir því sem vinnunni vindur fram og hversu lengi við verðum hér og hvernig þetta allt saman gengur. Ég ætla ekki að segja af eða á um það heldur verðum við að einhenda okkur í verkið og gera allt sem við getum til að gera þetta vel og með þeirri virku hlustun sem komið var inn á fyrr í dag. Á því á aðaláherslan að vera.

Varðandi hitt atriðið þá þekki ég ekki það mál sem hv. þingmaður nefndi og liggur í efnahags- og skattanefnd. En almennt get ég einfaldlega sagt að ég er mjög opin fyrir öllum þeim möguleikum sem við getum nýtt okkur til að efla frekar þessi svið. Ég verð líka að viðurkenna að ég datt aðeins út í fyrri parti andsvars hv. þingmanns og verð að biðja hann um að fyrirgefa mér það. Hann spurði um varmadælurnar, að við einblínum meira á atriði sem eru til þess fallin að nýta betur það sem fyrir er. Nýtum okkur einmitt líka sniðugar leiðir í skattamálum og alls kyns þess háttar málum sem ýmsar aðrar þjóðir eru að gera. Þá erum við að fara fram veginn með réttum hætti.