140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna eða rammaáætlun eins og hún kallast.

Ég vil taka fram að það er misritun í textanum í þingsályktunartillögunni. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þar sem ekki stendur til að sækja um eða gefa út virkjunarleyfi fyrir ágúst 2013 er ljóst að nýtt mat á umhverfisáhrifum mun verða unnið vegna virkjunarkostsins.“

Þessi setning er í kaflanum um Urriðafoss. Fram hefur komið frá því að þingsályktunartillagan var lögð fram að þetta er ekki alls kostar rétt. Það er Skipulagsstofnun sem leggur mat á það hvort gera þurfi nýtt mat eða hvort notast megi við hið eldra. Mér finnst mikilvægt að það komi fram hér og þessu verði komið áfram til nefndanna sem munu fjalla um þingsályktunartillöguna.

Hér hefur margt verið rætt og farið yfir ferlið. Þeir sem eru ekki samþykkir þessari þingsályktunartillögu hafa helst gagnrýnt ferlið og talað um að það sé ekki nægilega gott og reynt með alls konar leiðum að gera það tortryggilegt, talað um pólitísk fingraför o.s.frv. Því hlýt ég að mótmæla vegna þess að á öllum stigum málsins hefur verið farið eftir því verklagi sem upp var lagt með og núna á lokasprettinum var nákvæmlega farið eftir því verklagi sem lagt var upp með í lögum nr. 48/2011.

Ferlið gekk þannig fyrir sig að verkefnisstjórnin raðaði upp virkjunarkostum. Það var ekki hægt að fara með þá tillögu beint í umsagnaferli vegna þess að lögin segja til um að flokka þurfi virkjunarkosti í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Þess vegna voru fengnir til aðstoðar við röðun í þessa flokka formenn fagnefndanna og formaður verkefnisstjórnarinnar auk embættismanna frá iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti.

Útbúin voru drög að þingsályktunartillögu og fóru þau í lögbundið umsagnaferli. Nú hafa menn gagnrýnt það hér að tekið hafi verið tillit til þeirra umsagna sem fram komu í því ferli og það finnst mér með ólíkindum því að auðvitað stóð ekkert annað til en að taka tillit til þeirra umsagna. Fara þurfti í gegnum þær og kanna hvað hafði verið unnið með af verkefnisstjórninni og hvað voru nýjar upplýsingar og hvort einhver mistök hefðu hugsanlega verið gerð við samningu þingsályktunartillögunnar. Það var samviskusamlega gert.

Þær raddir hafa heyrst að réttast hefði verið að leggja einfaldlega fyrir Alþingi þingsályktunartillögu og skýrslu verkefnisstjórnarinnar. Eins og ég sagði áðan hefði það ekki verið hægt. Svo eru aðrir sem segja: Þá áttum við bara að leggja fram drögin beint á Alþingi eða setja þau í umsagnaferli og taka ekki tillit til umsagnanna. Okkur ráðherrunum var ekki leyfilegt að gera það.

Í öllu þessu ferli hefur verið farið eftir anda laga nr. 48/2011 þar sem varúðarsjónarmið eru gegnumgangandi. Þegar upp koma í umsagnaferlinu upplýsingar um tvö svæði sem verkefnisstjórnin hafði ekki áður verið með og upp kemur vafi sem ráðherrarnir geta ekki litið fram hjá lá beinast við að gera tillögu um að þeir virkjunarkostir færu í biðflokk á meðan væri verið að framkvæma þessar rannsóknir. Það er mikilvægt að hafa það í huga að biðflokkurinn er ekki geymsluflokkur fyrir umdeildar virkjanir. Í biðflokki eru aðeins virkjanir sem þurfa á einhverri nánari rannsóknum að halda, sumar gætu tekið langan tíma og aðrar styttri, en um leið og niðurstaða er fengin þarf að flokka virkjunarkostinn í endanlega flokkun, annaðhvort í verndarflokk eða nýtingarflokk.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Nú gengur málið til nefndar og að því loknu tökum við þingsályktunartillöguna til síðari umræðu.