140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að mótmæla því sem hv. þingmaður heldur hér fram. Ef ég tala fyrir mig sjálfa, starfandi iðnaðarráðherra, átti ég ekki nokkurs annars kost en að taka tillit til þeirra vafaatriða sem upp komu í umsagnaferlinu. Umsagnaferlið er lögbundið og lögboðið. Sjálf hafði ég ekki kynnt mér stefnu eða flokksstjórnarsamþykktir Vinstri grænna svo að það komi fram.

Ég spyr hv. þingmann á móti: Hvaða pólitískur veruleiki er að baki því að halda því fram að það veki tortryggni þegar tekið er tillit til umsagna sem upp koma í lögbundnu umsagnaferli? Hefði það ekki vakið enn meiri tortryggni ef ráðherrarnir hefðu litið fram hjá þeim vafamálum sem upp komu í þessu ferli?

Það sem ráðherrarnir gerðu var að segja sem svo: Þarna er kominn upp vafi. Til þess að vera trú anda laganna eigum við engra annarra kosta völ en að setja virkjunarkostina í biðflokk á meðan verið er að ýta þessum vafa til hliðar. Það er það sem okkur er boðið að gera með lögunum sem sett voru, nr. 48/2011.