140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á nokkrum staðreyndum. Í fyrsta lagi hófst vinna við þessa rammaáætlun árið 1999. Síðan er búið að skila þykkum doðröntum í skýrsluformi.

Verkefnisstjórnin skoðaði hvorki meira né minna en 84 virkjunarhugmyndir. Auðvitað voru mörg álitamál uppi. Hún afgreiddi sín mál og bjó til tiltekna forgangsröðun eins og við vitum. Tiltölulega mikil sátt varð um það. Það var heilmikið afrek og maður hafði fulla ástæðu til að ætla að nú hefði það tekist, sem var ætlunarverkið þegar þetta mál hófst allt saman fyrir 13 árum, að setja niður deilur og komast út úr því fari sem við vorum óneitanlega í, sem voru miklar deilur um nýtingu og virkjanir og þess háttar, og að koma þessu inn í eitthvert far sem leiddi til meiri sáttar.

Það er hins vegar ómótmælanlegt að eftir að hæstv. ríkisstjórn tók við þessu máli, tók við keflinu, hófust deilurnar á ný og þá upphófst tortryggnin. Hún hefur ekki bara endurspeglast í umræðunni á Alþingi heldur hefur hún líka komið fram í umræðunni úti í samfélaginu, hjá virkjunaraðilum, hjá sveitarfélögum, hjá fjölmörgum aðilum sem hafa verið að skoða þessi mál. Ég tel að það ætti að vera mikið umhugsunarefni, ég vil ekki segja áfellisdómur, fyrir hæstv. ríkisstjórn að henni skyldi takast svo óhönduglega til við þetta mál allt að hún skyldi afreka það á nokkrum mánuðum að tefla því í svo mikinn ágreining.

Hæstv. ráðherra segir að hér hafi komið upp ýmis vafaatriði. Auðvitað komu líka upp mörg vafaatriði fyrr í þessu ferli. Þau voru skoðuð. Þess vegna fór fram þetta víðtæka samráð. En einhvern veginn tókst verkefnisstjórninni að leiða þann ágreining í jörð. Hæstv. ríkisstjórn gerði hið gagnstæða, hún magnaði upp ágreininginn og er núna búin á fáeinum mánuðum að eyðileggja alla þessa vinnu með því að koma af stað ágreiningi algjörlega að þarflausu.