140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vinna við rammaáætlun hefur staðið frá árinu 1999, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, og á öllum stigum málsins hefur verið lögð áhersla á að vinna málið eins faglega og framast er kostur. Tilgangur vinnunnar er að vega og meta hvernig orkuvinnsla næstu ára og áratuga getur þróast með heildarhagsmuni að leiðarljósi svo að sátt náist á milli sjónarmiða um nýtingu og vernd. Það er einmitt rauði þráðurinn, við þurfum að ná sátt á milli nýtingar og verndar.

Deilur hafa staðið yfir um hvern einasta virkjunarkost í gegnum tíðina. Þau vafamál sem komu upp vörðuðu þá tvo virkjunarkosti sem hafa fengið mesta umfjöllun í þessari umræðu en enginn hinna kostanna hefur fengið vægi í umræðunni. Einmitt til að ná sátt þarf að ýta úr vegi þeim vafamálum sem upp hafa komið um þessa tvo virkjunarkosti. Það er til að ná endanlegri sátt í málinu en ekki til þess að skapa deilur. Það er til að leggja niður deilur sem hafa verið nákvæmlega um þau vafaatriði sem við þurfum að fá úr skorið og þess vegna setjum við þessa virkjunarkosti í biðflokk svo að hægt sé að leggja þær deilur niður eftir að niðurstöður rannsókna hafa komið fram.