140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:47]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hafði ætlað mér að fara í andsvör við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson en varð því miður örlítið of sein að banka í borðið en verð að segja að það er vissulega mjög athyglisvert ef stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn mega ekki lengur hafa skoðanir á nýtingu orkuauðlinda landsins og á náttúrunni. Það þykja mér miklar fréttir af hálfu Sjálfstæðisflokksins ef hann er orðinn skoðanalaus í málinu, en mjög gott ef hann ætlar héðan í frá að hlýða faglegum sjónarmiðum og taka tillit til faglegra ábendinga, t.d. náttúruvísindamanna, (Gripið fram í.) líffræðinga og margra annarra.

Það er til dæmis pólitísk yfirlýsing af hálfu beggja stjórnarflokka að vernda eigi Skjálfandafljót og jökulárnar í Skagafirði. Það var í „Fagra Íslandi“ Samfylkingarinnar og margítrekað hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að sjálfsagt væri og rétt, eina rétta niðurstaðan í þeim málum, að vernda bæði Skjálfandafljót og jökulárnar í Skagafirði og gott væri ef pólitíkin yrði einmitt til þess að menn tækju sig saman og gerðu það.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að tvennu. Það er nefnilega hárrétt að hæstv. ráðherrum bar samkvæmt lögum og ber samkvæmt lögum að setja þau svæði í bið þar sem vafi leikur á og frekari rannsókna er þörf.

Sér hæstv. ráðherra færi á því að hugsanlega fleiri svæði, eins og Reykjanesskaginn og mörg umdeild háhitasvæði vegna umdeilanlegra forsendna varðandi nýtingu þeirra, verði færð í bið og jafnvel hvort einhver rök séu fyrir því á þessum forsendum?

Í öðru lagi varðandi umhverfismat við Þjórsá, það er náttúrlega orðið mjög gamalt eins og hæstv. ráðherra veit. Er ekki einboðið að (Forseti hringir.) það fari fram nýtt umhverfismat þar sem samlegðaráhrif (Forseti hringir.) virkjananna verði meðal annars metin? Í gegnum árin hefur þetta umhverfismat verið mjög gagnrýnt og hvað upp á vantar, það er orðið úrelt eins og raun ber vitni. (Forseti hringir.)