140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu var þegar umsóknirnar voru metnar horft sérstaklega á þær nýju upplýsingar sem komið höfðu fram í því umsagnaferli sem verkefnisstjórnin hafði ekki unnið með, við endurmátum ekki það sem verkefnisstjórnin var búin að vinna með. Ég held að það hafi verið ágætt vinnulag því að eins og fram hefur komið var þetta langt ferli og búið var að meta hvern kost frá mörgum hliðum og þá var bara spurning á síðustu metrunum hvort eitthvað nýtt hefði komið fram sem taka þyrfti tillit til. Þess vegna er það ekki mitt mat að setja fleiri kosti í biðflokk en nú þegar er búið að gera.

Varðandi umhverfismatið við Urriðafoss þá leggur Skipulagsstofnun samkvæmt lögum mat á það hvort gera eigi nýtt mat eða hvort notast megi við hið eldra. Skipulagsstofnun getur ákveðið að fram fari nýtt mat eða sagt að nota megi hið eldra. Skipulagsstofnun getur líka ákveðið að meta einhverja ákveðna þætti o.s.frv.

Það er vissulega rétt að tíu ár er nokkuð góður tími, það fer að vísu eftir því í hvaða samhengi maður horfir á það, en það er Skipulagsstofnun sem hefur þetta matsvald.