140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:51]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er vissulega rétt að Skipulagsstofnun fer með þetta vald. Ég ræddi þetta einmitt við nokkra góða vísindamenn um daginn. Hins vegar getum við öll haft á því skoðun og ýmsir miklir fræðingar hafa einmitt haft á því þá skoðun að það verði að fara í nýtt umhverfismat á þessum virkjunum, m.a. með tilliti til samlegðaráhrifa þeirra og ýmissa þátta sem ekki var nógu mikið tillit tekið til, að það sé einboðið vegna þess hversu gamalt og úrelt þetta umhverfismat er orðið.

Ég hafði ekki reiknað með að þetta væri villa í framsetningu eins og það er í þingsályktunartillögunni, um að nýtt umhverfismat færi fram, heldur lægi fyrir að það yrði gert. Það kemur mér því á óvart að svo verður ekki. Ég vonast hins vegar til að hin faglegu rök sigri í þessum efnum. Það er að mínu mati alveg ljóst að það væri öllum til góða og engum til hnjóðs að hafa þær upplýsingar og þær rannsóknir sem við þurfum á að halda og þar með talið þurfum við nýtt umhverfismat. Að því sögðu verður þó að hafa í huga að jafnvel þegar umhverfismat liggur fyrir á ýmsum svæðum felast engan veginn nægilegar upplýsingar í því eins og margir öflugir vísindamenn og fræðingar og þeir sem til þekkja hafa bent á. Margvíslegar rannsóknir verða að liggja fyrir ef við ætlum raunverulega að fara fram með ábyrgð og hafa heildaryfirsýn í þessum efnum. Þar hallar mjög á náttúrufarsrannsóknir, landslagsrannsóknir og umhverfisrannsóknir almennt, að ég tali ekki um samfélagsrannsóknir.