140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim tilgangi að tengja Eyjafjörð og Fnjóskadal með jarðgöngum um Vaðlaheiði er lagt til í frumvarpi þessu að ráðherra verði fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að undirrita samning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8.700 millj. kr. miðað við verðlag í lok árs 2011. Félagið sjálft, eignir þess og tekjustreymi skulu samkvæmt frumvarpinu vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.

Mælt er fyrir um að lánsfjárhæðin skuli greiðast til félagsins í samræmi við framvindu verks og í samræmi við þann lánasamning sem lagt er til að verði undirritaður verði frumvarpið að lögum. Hnykkt er á því að gera skuli grein fyrir lánsfjárhæð hvers árs í frumvarpi til fjárlaga fyrir það ár. Mælt er fyrir um það að lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, skuli gilda um lánveitinguna að undanskildum tveimur ákvæðum þeirra laga. Annars vegar er um að ræða 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna en í því ákvæði er mælt fyrir um að ábyrgðarþegi leggi fram að minnsta kosti 20% af heildarfjárþörf verkefnisins. Hins vegar er um að ræða 2. mgr. 3. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ábyrgð ríkisins skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð.

Ástæðan fyrir því að lagt er til að umrædd lánveiting sé undanskilin þessum skilyrðum laga um ríkisábyrgðir er sú að félagið Vaðlaheiðargöng hf. var stofnað á grundvelli laga nr. 97/2010 sérstaklega til að sinna því verkefni að standa fyrir gangaframkvæmdum um Vaðlaheiðina. Þar sem félagið er að meiri hluta í eigu opinberra aðila og stofnað til að vinna að þessu brýna samfélagsverkefni á grundvelli sérleyfis þótti ekki rétt að leggja of íþyngjandi kvaðir á það að þessu leyti. Þessi skilyrði laganna gætu hins vegar verið eðlileg þegar um væri að ræða félög sem ekki væru í eigu opinberra aðila og sinntu öðrum óskyldum verkefnum.

Virðulegi forseti. Forsaga frumvarps þessa er öllum kunn enda hefur mál þetta verið ítarlega rætt, bæði á Alþingi og öðrum opinberum vettvangi. Við fjárlagagerðina seint á síðasta ári var leitað heimilda á fjárlögum til að undirrita samninga við Vaðlaheiðargöng hf. um fjármögnun framkvæmda, auk 2 milljarða kr. fjárheimildar fyrir fyrsta hluta lánsins. Heimildin til undirritunar slíks samnings var tekin upp í heimildargrein fjáraukalaga 2011. Fjárheimildin sjálf, sem ekki átti að koma til greiðslu fyrr en á þessu ári, var hins vegar tekin upp í fjárlög þessa árs.

Við meðferð málsins á Alþingi fyrir áramót komu upp ákveðnar efasemdir um fjárhagslegar forsendur verkefnisins. Ákveðið var því að láta óháðan aðila yfirfara viðskiptaáætlanir Vaðlaheiðarganga hf. og leggja mat á forsendur verkefnisins. Fjármálaráðuneytið fékk í tengslum við þá ákvörðun IFS Ráðgjöf ehf. til að vinna greinargerð um framkvæmdina samkvæmt ítarlegri verklýsingu. Sú greining liggur nú fyrir og er fylgiskjal með frumvarpi þessu. Þar sem fjárlög gilda einungis til eins árs í senn og ekki hafði tekist að ljúka málinu á síðasta ári féll fjáraukalagaheimildin þar með úr gildi. Sé vilji til að halda málinu áfram, hæstv. forseti, verður það því ekki gert nema með sérstöku frumvarpi þar sem umrædd lánveiting er heimiluð.

Með hliðsjón af því að ekki náðist að undirrita samning við ríkið um framangreinda lánveitingu á síðasta ári óskuðu Vaðlaheiðargöng hf. eftir því við bjóðendur í verkið að þeir framlengdu tilboð sín um nokkra mánuði, þ.e. fram undir miðjan júní. Eins og sjá má af gögnum málsins var mjög vandað til verka af hálfu IFS við vinnslu greinargerðarinnar. Þessir aðilar yfirfóru öll gögn, spár og áætlanir sem lágu til grundvallar þeim forsendum sem lagt var upp með við undirbúning framkvæmdarinnar. Ítarlega var jafnframt farið yfir fjárhagslíkan sem unnið var fyrir Vaðlaheiðargöng hf., auk þess sem ráðgjafar félagsins voru fengnir til að útskýra virkni fjárhagslíkansins. Líkanið var að því búnu uppfært af IFS Greiningu og næmnigreining gerð á tilteknum þáttum þess. Síðan var framkvæmd hermun á niðurstöðunum sem gefur niðurstöður í formi líkindadreifingar og gríðarlega margra mismunandi sviðsmynda.

Einnig er í greinargerðinni bent á að viðskiptaáætlunin er háð mörgum breytum sem geta þróast til betri eða verri vegar. Af þessum breytum telur IFS Greining nokkra þætti veigamesta. Þeir eru:

Greiðsluvilji notenda og hlutfall þeirra sem fara um göngin.

Umferðarþróun.

Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður.

Vextir og endurfjármögnun.

Í greinargerð IFS Greiningar er bent á varðandi greiðsluvilja notenda, hlutfall þeirra sem fara um göngin og umferðarþróun að hér er um að ræða þætti sem ekki liggja fyrir fyrr en á reynir. IFS Greining taldi hins vegar það hlutfall sem notað væri í viðskiptaáætlunum Vaðlaheiðarganga hf. innan raunhæfra marka. Varðandi stofnkostnað taldi IFS að hann væri einnig innan raunhæfra marka í áætlunum Vaðlaheiðarganga hf. enda byggja þær á áætluðum kostnaði Vegagerðarinnar, að teknu tilliti til niðurstöðu útboðs í 95% framkvæmdarinnar auk 7% óvissuálags. Um rekstrarkostnað telur IFS ekki ástæðu til annars en að telja að viðskiptaáætlun Vaðlaheiðarganga um rekstur og viðhaldskostnað sé innan raunhæfra marka þar sem hún byggir á forsendum Vegagerðarinnar.

Hér má auk þess nefna að 13. mars sl. var enn frekari óvissu eytt að þessu leyti, en þá ritaði Vegagerðin undir viljayfirlýsingu við Vaðlaheiðargöng hf. um að hún væri reiðubúin að gera langtímasamning við félagið um rekstur og viðhald ganganna á þeim forsendum sem Vegagerðin hafði lagt upp með. Varðandi endurfjármögnun og langtímavexti liggur fyrir að gert er ráð fyrir því að framkvæmdalán frá ríkinu verði greitt upp eftir að göngin hafa verið í rekstri í þrjú ár, þ.e. á árinu 2018. Áætlanir gera ráð fyrir að þegar verkinu verði að fullu lokið og reynsla komin á rekstur ganganna muni Vaðlaheiðargöng hf. endurfjármagna ríkislánið með útgáfu skuldabréfa á markaði.

Gert er ráð fyrir að endurfjármögnunin verði í tvennu lagi, annars vegar verði um það bil 1/3 hluti fjárhæðarinnar jafngreiðslulán til 28 ára og hins vegar verði 2/3 hlutar hennar lán þar sem árlegar afborganir eru háðar rekstrarniðurstöðu félagsins með óþekktum lokagjalddaga. IFS Greining bendir á að erfitt sé að fullyrða um fjármögnunarkjör svo langt fram í tímann. Sé hins vegar miðað við þau fjármögnunarkjör sem bjóðast í dag þyki þeir vextir sem miðað er við í viðskiptaáætluninni fulllágir, 3,7% fastir verðtryggðir vextir. Bent er þó á að langtímavextir hafa á undanförnum árum farið lækkandi og að enn sé svigrúm til frekari vaxtalækkana. Á þeim tíma verði jafnframt búið að eyða mikilli óvissu um framtíðarhorfur verkefnisins.

Við gerð þessa frumvarps var jafnframt óskað eftir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um málið. Sú umsögn liggur fyrir og er fylgiskjal með frumvarpi þessu. Kjarninn í greinargerð IFS Greiningar og í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs er á þá leið að þessir aðilar telja að megináhætta ríkissjóðs vegna þeirrar lánveitingar sem hér er lögð til felist í því að ríkissjóður sem lánveitandi framkvæmdalánsins muni bera áhættu af því hvort endurfjármögnun á markaði takist á viðunandi kjörum á árinu 2018. Takist það ekki mun ríkissjóður þurfa að framlengja skammtímalánið þar til betri grundvöllur verður til endurfjármögnunar. Til að lágmarka þessa áhættu bendir Ríkisábyrgðasjóður á að í ljósi þess að vaxtastig sé í sögulegu lágmarki væri skynsamlegt að tryggja langtímafjármögnunina strax. Ljóst er að verði frumvarpið að lögum mun ríkissjóður fjármagna heildarfjárhæðina strax á markaði og endurlána Vaðlaheiðargöngum hf. í samræmi við lánasamning og verkframvindu. Komi til þess að erfiðlega reynist að leita fjármögnunar á markaði á árinu 2018, eins og fyrirhugað er, hefur ríkissjóður því nægt svigrúm til að framlengja lán sitt til Vaðlaheiðarganga hf. án þess að ríkið verði fyrir fjárhagslegu tjóni. Ástæða þess er sú að vextir á lánum til ríkissjóðs um þessar mundir eru mun lægri en gert er ráð fyrir í viðskiptaáætlun Vaðlaheiðarganga hf. þannig að vaxtamunur verði á þessum lánum ríkinu í hag.

Í þessu sambandi má einnig benda á að eftir útgáfu greinargerðar IFS Greiningar hefur verið tekin ákvörðun um að hækka eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. úr 400 millj. kr. í 600 millj. kr. þannig að eigið fé þess verði um 7% í stað 5%. Félagið á því að geta borið meiri áhættu í starfsemi sinni en gert var ráð fyrir í forsendum IFS.

Hæstv. forseti. Hér er um afar brýnt verkefni að ræða sem mun koma þjóðinni allri til góða í framtíðinni. Vaðlaheiðargöng eru í samgönguáætlun þeirri sem hæstv. innanríkisráðherra mælti nýverið fyrir á Alþingi. Verði frumvarp þetta ekki að lögum eru allar líkur á að ríkissjóður muni kosta Vaðlaheiðargöng að fullu þegar að þeim kemur á samgönguáætlun. Með því að vinna með heimamönnum að framgangi þessa verkefnis í sérstöku félagi í stað þess að ríkissjóður kosti framkvæmdina að fullu þegar að henni kemur í samgönguáætlun er ríkið að ná fram miklum ávinningi.

Í fyrsta lagi fellur kostnaðurinn ekki á ríkissjóð gangi áætlanir eftir. Jafnvel þótt forsendur raungerist með mun verri hætti en gert er ráð fyrir mundi einungis hluti kostnaðarins lenda á ríkissjóði samanborið við allan kostnað ef göngin yrðu fjármögnuð með hefðbundnum hætti á samgönguáætlun. Ástæðan liggur í veggjöldunum sem félagið mun innheimta.

Í öðru lagi gerir þessi aðferð við fjármögnun ríkinu kleift að ráðast í framkvæmdir við aðstæður sem ríkissjóður hefði að öðrum kosti ekki tækifæri til að ráðast í. Ávinningur af framkvæmd sem þessari er veruleg innspýting í hagkerfið, sérstaklega þegar atvinnuástand er ekki með besta móti.

Í þriðja lagi stuðlar framkvæmdin að samþættingu atvinnulífs og byggða á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum og því að svæðið verði eitt atvinnu- og búsvæði. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir heimamenn með tilliti til atvinnuuppbyggingar á svæðinu, m.a. í formi orkuiðnaðar og orkufreks iðnaðar á komandi árum.

Í fjórða lagi er áætlað að ríkið fái 517 millj. kr. í beinar tekjur af framkvæmdinni í formi aukinna skatttekna og sveitarfélög um 366 millj. kr. Reikna má með slíkum tekjum sem hreinni viðbót nú þegar slakinn í hagkerfinu er mikill og lítilla eða engra ruðningsáhrifa gætir. Þegar vegin er áhætta ríkisins af umræddri lánveitingu við þau þjóðhagslegu og samfélagslegu atriði sem talin voru hér upp verður að telja áhættu ríkisins litla miðað við þann mikla ávinning sem framkvæmdin kemur til með að skapa.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.