140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræðir skýrslu Ríkisábyrgðasjóðs þar sem fjallað er um vaxtastigið. Ekki ætla ég að gera athugasemdir við þá skýrslu, hún er gagn í málinu og er mikilvægt að skoða öll áhættuatriði verkefnisins og reyna að gera sér grein fyrir þeim sem best áður en farið er af stað. Hins vegar getum við ekki vitað í dag hvaða vextir bjóðast á markaði árið 2018 og þess vegna segir í niðurstöðukafla skýrslunnar að ef við viljum fara í þessa framkvæmd sé ráðlegra að taka lánið núna og lána til lengri tíma. Það er auðvitað hægt og ég hef boðað í ræðu minni að staðan verði tekin árið 2018 þegar margir óvissuþættir (Forseti hringir.) hafi skýrst og við vitum betur hver staðan er. Þá vitum við hvort framlengt verður í láninu.