140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg svar hæstv. ráðherra að því leyti til sem hæstv. ráðherra vísaði til umsagnar Ríkisábyrgðasjóðs. Þær ábendingar koma þar fram að auðvitað sé eðlilegra og skynsamlegra að fjármagna allt verkefnið áður en farið er af stað vegna þess að einn af stærstu þáttunum er vaxtastigið. Ég minni á að nú eru gjaldeyrishöft í landinu sem gera það að verkum að fjárfestingarkostir eru ekki margir. Þess vegna er vaxtastigið mjög lágt. Þess vegna fer Ríkisábyrgðasjóður þessa leið og tekur meðaltalið aftur í tímann og færir fyrir því mjög efnisleg og góð rök í umsögn sinni.

Má ég skilja hæstv. ráðherra þannig að það kæmi til greina að fjármagna verkefnið til lengri tíma en ekki einungis fara í þetta framkvæmdalán eins og gert er ráð fyrir hér sem á síðan að endurfjármagna eftir sex ár, þ.e. 2018? Kemur það til greina?