140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrri spurningu hv. þingmanns um hvort þeirri sem hér stendur þyki ásættanlegt að fara á svig við lögin um ríkisábyrgð tel ég alls ekki að við séum að því, en þar sem félagið sem sjá mun um gangagerðina er í meirihlutaeigu opinberra aðila og er stofnað til að vinna að þessu brýna samgönguverkefni á grundvelli sérleyfis teljum við óþarft að leggja eins íþyngjandi kvaðir á þetta félag, sem er í opinberri eigu, og gert er ráð fyrir í lögum um Ríkisábyrgðasjóð að lagðar séu á einkafyrirtæki.

Varðandi það hvort tekið hafi verið tillit til skýrslu Ríkisábyrgðasjóðs þá fer hann yfir áhættuþættina (Forseti hringir.) og áhættugreinir verkefnið. Við tökum auðvitað tillit til (Forseti hringir.) þess sem þar stendur og metum síðan hvaða skref við tökum í framhaldinu.