140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:20]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Tíminn er stuttur, það er kannski rétt tími til að tæpa á tveimur til þremur atriðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og vitna, með leyfi forseta, í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs:

„Áhætta ríkisins er því slík að eðlilegt er að horfa til þess hvort ekki sé hagkvæmara að ríkissjóður fjármagni verkefnið að fullu með sama hætti og aðrar opinberar framkvæmdir.“

Svo segir einnig:

„Sé það vilji ríkisins að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga með þessum hætti telur Ríkisábyrgðasjóður eðlilegra að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að langtímafjármagna verkefnið á markaði áður en framkvæmdir hefjast.“

Ríkisábyrgðasjóður er auk þess með ýmsa fyrirvara við forsendur Vaðlaheiðarganga.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Hvernig telur hún að komið hafi verið til móts við þessar alvarlegu ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs? Og ein grunnspurning í framhaldi af því með vangaveltum um einkaframkvæmd og opinbera framkvæmd: Ef framkvæmdin er svona örugg (Forseti hringir.) og fín og svona góð fyrir ríkissjóð, hvers vegna er þetta þá ekki bara einkaframkvæmd? Hvers vegna eru ekki einkaaðilar látnir (Forseti hringir.) sjá um þetta alfarið fyrst það er svo lítil áhætta (Forseti hringir.) í þessum efnum eins og haldið er fram?