140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:59]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir öfluga, góða og málefnalega ræðu og líka fyrir að rifja upp söguna í þessu máli og það ólíkindaferli allt, hversu erfitt samgöngunefnd þingsins reyndist að knýja fram einhvers konar óháða úttekt á því. Það væri hreint með ólíkindum ef við færum í öll smáatriðin í því máli. Reyndar er það þannig að þeirri sem hér stendur hefur leynt og ljóst verið sagt að vera ekki að skipta sér af þessu máli, þetta komi samgöngunefnd þingsins ekkert við. Það er auðvitað mjög til umhugsunar fyrir þingheim allan.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að það sé gríðarlega varasamt fyrir þingið svona stuttu eftir hrun að vera með þessu frumvarpi að reyna að fara á svig við þær reglur sem settar hafa verið. Fjárlaganefnd var nýlega í Svíþjóð. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var þar en þar var farið mjög ítarlega í gegnum, og mjög vel af því látið, reglur hjá fjárlaganefnd sænska þingsins. Ég spyr hvort hann telji okkur geta lært eitthvað af þeim í þessu máli til dæmis og hvort hann telji að á einhvern hátt sé tekið tillit til ábendinga Ríkisábyrgðasjóðs í frumvarpinu. Er eitthvað í reynd gert með ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs? Sér hann þess einhvern stað að svo sé?

Varðandi atvinnusköpun þessa þáttar þætti mér líka forvitnilegt að vita hvort fjárlaganefnd (Forseti hringir.) hefur farið í einhverja vinnu í að greina hvaða verkefni samgöngumála (Forseti hringir.) eru mest atvinnuskapandi og hvort þetta sé þar efst á blaði.