140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðustu spurningunni get ég strax svarað neitandi. Við höfum ekki farið í þá vinnu í hv. fjárlaganefnd eftir að ég settist í hana til að meta nákvæmlega hvaða verk eru mest atvinnuskapandi.

Umræðan í hv. samgöngunefnd áður en hún var sameinuð og henni breytt síðasta haust var á þann veg að mannaflsfrekustu framkvæmdirnar væru brúargerð og svo smærri verk sem menn dreifa um allt land án þess að ég sé að fullyrða neitt um það.

Hv. þingmaður nefndi nefnilega, og er ágætt að geta komið því hér að, að hv. fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar fyrir páskana í heimsókn til sænska þingsins til að afla sér upplýsinga um hvernig staðið er að málum þar eftir að þeir lentu í sinni krísu töluvert á undan okkur — og þeir eru búnir að vinna sig úr þeirri krísu. Það var mjög athyglisverð ferð. Þeir könnuðust bara ekki við margt af því sem við vorum að spyrja um, t.d. um fjáraukalögin.

Í ferðinni komu fram upplýsingar um að þegar farið væri í framkvæmdir eins og þessa — ein brú var einmitt nefnd sérstaklega — væri gerð sú krafa að menn færu ekki út fyrir rammann. Rammarnir eru fastir, menn fara ekkert út fyrir þá, það er bara þannig, sama hvað tautar og raular til að geta haldið ábyrgð á ríkisfjármálum Á meðan einhver hætta er á því að eitthvað lendi á ríkissjóði er það fært inn í rammann og síðan sprengir það hægt og bítandi rammann utan af sér til að skapa svigrúm fyrir stjórnmálamenn. Það sem var merkilegast í þessari ferð sem var mjög ánægjuleg — það var til mikils sóma hvernig var staðið að henni, bæði af starfsmönnum þingsins og hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni nefndarinnar — að óábyrgir stjórnmálamenn í fjármálum hljóta ekki kosningu þar.