140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Ég hef ekkert á móti göngum undir Vaðlaheiði og þykir ágætt að hafa vegaframkvæmdir og sérstaklega ef þær geta hvatt til aukinnar atvinnu í þeirri byggð sem þar er í kring o.s.frv. Við höfum hins vegar samgönguáætlun fyrir opinberar framkvæmdir í samgöngum og þar er verkefnum raðað niður eftir ýmsum liðum — ég ætla ekki að fara út í hvernig það er gert, það koma inn í það heilmiklar umræður og menn togast á milli kjördæma o.s.frv., ég hef ekki blandað mér í það mál og hef ætíð sagt að ég noti flesta vegi landsins sem borgari þessa lands og ég vil bara að þetta sé faglegt og ákveðin áhersla lögð á það — og mér skilst að núna sé mest þörf á Norðfjarðargöngum af þeim göngum sem menn ætla að fara í með opinberu fé.

Hér er eitthvað mjög skrýtið á ferðinni, einhver bókunarbrella. Menn ætla sér að fara í framkvæmd án þess að hún sé framkvæmd, án þess að það sé kostnaður, án þess að það sé rekstur. Ég hef stundum spurt að því hvað gerðist ef við mundum stofna Háskóla Íslands ohf. sem tæki að sér allan rekstur og fjárfestingar Háskóla Íslands og þá hyrfi skólinn bara sem rekstur af ríkissjóði. Síðan mundi ríkissjóður borga þangað inn formleg gjöld fyrir háskólanemendur, 1 millj. kr. á mann, næstu 25 árin og þá gerist nákvæmlega það sama, þ.e. allt í einu er þessi rekstur farinn úr ríkissjóði. Þetta mætti gera með sitthvað fleira, frú forseti. Það mætti bara eyða öllum ríkisrekstri með þessum hætti — Lögregla Íslands ohf., Sýslumenn Íslands ohf. Mér finnst við stefna í nákvæmlega það sama og Grikkir voru hankaðir á með því að sýna ekki réttar skuldbindingar ríkissjóðs. Það er svo mikilvægt. Þetta veit hver einasta húsmóðir í landinu, frú forseti. Það er svo mikilvægt að vita hvað maður skuldar. Það er svo mikilvægt fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og alla að vita hvað þeir skulda og hvað bíður þeirra. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að vita hvað við sem skattgreiðendur skuldum og hverju við veltum yfir á börnin okkar því að þau eru framtíðarskattgreiðendurnir. Þess vegna er ég mjög mikið á móti þessari aðferðafræði. Menn eru hreinlega að plata, plata með opin augu og halda að enginn fatti það.

Síðan er komið að veggjöldum. Mig minnir að 80% eigi að fara í gegnum göngin, en ég efast um það. Ég má efast um það ef ég vil og ef áætlanir standast ekki og á björtum sumardögum fer ekki nema helmingurinn í gegn og segjum að það séu margir bjartir sumardagar og Víkurskarðið er fallegt og ferðamenn sem ferðast um landið vilja frekar keyra í sól en í dimmum göngum þótt þau séu upplýst með rafmagni, sem kostar líka, þá finnst mér þetta allt einhvern veginn vera brella.

Ef þessar áætlanir standast um veggjöldin og allt það þá segja menn að ekki þurfi ríkisábyrgð. Af hverju er þá ríkisábyrgð ef þetta er svona gullið? Af hverju eru ekki fundnir fjárfestar til að setja í þetta pening? Það er vegna þess að þessar áætlanir eru svo stórhættulegar að menn treysta þeim ekki, fjárfestar treysta þeim alla vega ekki. Það vantar ríkisábyrgð, það vantar einhvern til að borga og ég get sagt, frú forseti, að þegar kemur að því að borga munu þeir ekki borga sem leggja þetta til, þeir mundu halda lífeyri sínum og þeir munu jafnvel halda launum sínum og öllu, það breytist ekki neitt hjá þeim, heldur verður það skattgreiðandinn sem borgar. Þannig er komið fyrir okkur Íslendingum að skattgreiðendur eru að borga töluvert mikið af þessu og öðru.

Menn ætla að ganga lengra. Við sjáum húsið við höfnina, Hörpu. Það er sambærilegt. Þetta hús datt víst ofan af himnum. Það borgaði það enginn. En við erum að borga 700–800 millj. á hverju einasta ári, skattgreiðendur þessa lands og Reykvíkingar. Í 35 ár munum við borga. Það er skuldbinding. Mér finnst að það eigi bara að færa þetta inn í ríkisreikning sem skuldbindingu eins og lán. Það er enginn munur á því hvort ríkissjóður byggir Hörpu og tekur lán til þess og borgar á hverju ári 55% af þessum 700–800 milljónum og því hvort kalla eigi það leigu, afnot af húsinu eða kalla það bara afborgun af láni. Þetta þarf að borga í 35 ár. Hver skyldi gera það, frú forseti? Skattgreiðendur, börnin okkar, ekki borgum við það eftir 35 ár, nema þeir hv. þingmenn sem eru yngstir.

Svo er allt ferlið í kringum þetta. Það er voðalega skrýtið. Ég veit ekki hvort hv. þm. Kristján Möller — hann þyrfti að vera viðstaddur umræðuna. Hann var samgönguráðherra. Hann er í stjórn þessa félags og ef menn sjá ekki eitthvað skrýtið og gruggugt við það þá finnst mér það skrýtið. Mér finnst skrýtið að hann skuli ekki vera spurður: Hvert er samhengi þessara hluta? Sá ágæti hv. þm. Kristján Möller. Hvernig gerðist það að allt í einu var farið að vinna í göngum undir Vaðlaheiði en ekki göngum við Norðfjörð? Hvernig stendur á því? Kannski veit hæstv. fjármálaráðherra svarið við því. Hvernig stendur á því að allt í einu er farið að keyra þessi göng áfram umfram önnur?

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta.

Hér er mat á greiðslugetuforsendum frá IFS Greiningu. Ríkisábyrgðasjóður er líka með skýrslu sem er eitt stórt varnaðarmerki. Svo ætla menn að fara víðar út í svona dæmi. Mér skilst að byggja eigi eitt stykki sjúkrahús. Það á líka að detta af himnum ofan. Það á enginn að borga það. Það dettur bara allt í einu af himnum ofan og menn ætla að borga það með auknum sparnaði í framtíðinni. Ég hef heyrt þetta áður. Þegar spítalarnir voru sameinaðir átti að verða gífurlegur hagnaður af sparnaði og svo var farið fram úr fjárheimildum á hverju einasta ári þangað til núna því að það er komin mjög styrk fjármálastjórn í háskólasjúkrahúsið — það byggist á þeim einstaklingi en ekki á sameiningarsparnaði.

Ég hef miklar efasemdir um ferli þessa máls alls. Ég hef ekkert á móti þessum göngum. Ég vil þau gjarnan. Þau eru mjög sniðug en ég vildi að þau borguðu sig með veggjöldum og slíku. Menn mega gjarnan byggja þau mín vegna ef þeir skuldbinda ekki skattgreiðandann á þann máta að hann eigi ekki að fatta það. Ég vil að skattgreiðandinn viti hvað bíður hans. Það er númer eitt, tvö og þrjú að skattgreiðendur þessa lands, bæði núverandi og framtíðarskattgreiðendur, viti hvað bíður þeirra. Það er allt of mikið af skuldbindingum.

Nú gengur hv. formaður fjárlaganefndar í salinn. Það er ágætt því að ég veit að hún deilir áhyggjum mínum um skuldbindingar sem ekki eru færðar til bókar og sem á að velta yfir á framtíðina án þess að nokkur maður fatti.