140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:33]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Eins og hann veit fjölluðum við einmitt um þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd, þótt í óþökk sumra væri, og áttum þar opinn fund 7. nóvember síðastliðinn og lögðum í kjölfarið fram beiðni til Ríkisendurskoðunar um að hún gerði úttekt á málinu. Ríkisendurskoðun hafnaði því á mjög svo umdeilanlegum forsendum, eins og við ræddum, en ég ætla ekki að fara út í smáatriði. Í framhaldinu liðu sex vikur áður en forsætisnefnd svaraði erindi nefndarinnar um að leita til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um málið. Þá var í rauninni fundin sú leið, eins og ég sagði í ræðu minni, að framkvæmdarvaldið færi fram með beiðni sem ég hefði talið mun heppilegra að hefði verið á könnu okkar í þinginu. Þetta var það sem við vorum alltaf að biðja um og fara fram á. Það hefði verið eðlilegt að við hefðum fengið að útlista öll þau álitamál sem við teldum að væru til staðar.

Ég tel að ýmis álitamál séu enn til staðar, t.d. þau sem útlistuð eru í skýrslu Pálma Kristinssonar og ýmis í skýrslu IFS Greiningar en það sem vantar þar er að sjálfsögðu sjálfstæð greining á þeim grunnforsendum sem styrinn stendur um, hvort þær standist. Þetta og hitt er tekið sem gefið vegna þess að einhver annar gefur sér það o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er auðvitað það sem vantar upp á. Svo vantar líka (Forseti hringir.) eitthvert yfirlit yfir áhættu og áhættustýringu í (Forseti hringir.) þessum efnum.