140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:44]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Nú finn ég ekki í fljótu bragði þessa tölu í skýringum með frumvarpinu eða í athugasemdum, hún á að vera hér einhvers staðar. Ég get bara sagt það sem var sagt við mig þegar ég spurði sérstaklega um þetta atriði. Þá var sú tala nefnd, þótt hún hlaupi á löngu bili, 300–400 milljónir og var þá nær 400 milljónum. Þetta er eins og ég segi nokkuð sem fjárlaganefnd þyrfti að fara vel yfir og full ástæða til. Ég hef í rauninni ekki mikið meira um málið að segja á þessu stigi nema bara að þetta hefur komið fram og eðlilegt að málið fari í gegnum það ferli sem þar er.

Eitt vil ég þó segja í lokin vegna þess að það er alltaf verið að tala um að maður sé óvinur alls og allra í þessu samhengi: Þótt Vaðlaheiðargöng fari í rétta forgangsröðun og fari jafnvel aftar í röðina á réttum forsendum þá eyðileggst ekkert sú vinna sem hefur verið unnin í málinu. (Forseti hringir.) Hún bara geymist.