140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

686. mál
[21:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli. Framsagan var allítarleg og reifaði flesta þá þætti sem máli skipta í frumvarpinu.

Ég tel jákvætt að taka þessa löggjöf til endurskoðunar og tel að þörf hafi verið á því að fara yfir þær réttarreglur sem um þetta gilda og endurmeta stöðuna í ljósi breyttra aðstæðna og eins í ljósi reynslunnar af framkvæmdinni á undangengnum árum. Ég verð þó að segja við þessa umræðu að ég hef nokkrar efasemdir um hinar fjárhagslegu forsendur sem fram koma og hef tilfinningu fyrir því að meiri kostnaður muni falla á ríkissjóð en gert er ráð fyrir. Hitt er annað mál að slíkt er ekkert óeðlilegt í ljósi þess hvaða breytingar eru undir í þessu máli. Þrátt fyrir að ég efist um að þessar kostnaðartölur muni reynast réttar geri ég því ekki athugasemdir við frumvarpið á þeim forsendum. Þar held ég að um sé að ræða eðlilega afleiðingu þeirra efnislegu breytinga sem í frumvarpinu felast.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar í tilefni af þessu máli og lýtur hún fyrst og fremst að þeirri grundvallarafstöðu minni að það sé meginreglan að sá sem brýtur af sér eigi að bæta þann skaða sem hann veldur, bæði tjón og miska. Ég vildi biðja hæstv. ráðherra að koma nánar inn á það hvernig gengið verður eftir því miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir.