140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

686. mál
[21:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta innlegg í umræðuna. Það er fullkomlega eðlilegt að menn vilji skoða fjárhagslegar forsendur breytinga sem gerðar eru á lögum. Það kemur fram í frumvarpinu og fylgigögnum með því, og var áréttað í ræðu minni, að gert er ráð fyrir útgjaldaauka. Hv. þingmaður telur að ætla megi að útgjaldaukningin verði heldur meiri en þessu nemur. Ég vil geta þess að við byggjum á tölfræði sem ég hef vísað í en það er eðlilegt að nefndir Alþingis skoði þetta, og hv. allsherjarnefnd gerir það. Við þurfum þá líka að tefla fram fjármagni til að standa straum af kostnaði við frumvarpið. Þetta eru eðlilegar athugasemdir en ég fagna því að þingmaðurinn lítur svo á að þetta sé frumvarp í réttlætisátt og það er líka mikilsverður hlutur.

Ég tek undir með honum að það er mikilvægt að sá sem veldur tjóni á annarri manneskju, með líkamsmeiðingum eða einhvers konar meiðingum, standi sjálfur straum af þeim greiðslum sem þeim sem fyrir tjóninu verður þarf að tryggja. Spurningin snýst einvörðungu um að ríkið ábyrgist að viðkomandi fái tiltekna upphæð í hendur, óháð því hvað hinn reynist vera borgunarmaður fyrir. En að sjálfsögðu verður gengið eftir því að greiðslur verði inntar af hendi af hans hálfu.

Ég tel það síðan mjög mikilvægt að unnt sé að koma til hjálpar þeim sem ekki fær greiðslur umfram það lágmark sem hér er kveðið á um. Þá erum við til dæmis að horfa til (Forseti hringir.) einstaklinga sem sæta ofbeldi og nauðgun og þurfa síðan að sækja bæturnar í hendur kvalara síns.