140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þingstörfin það sem eftir er af þessu þingi. Fyrir liggur gríðarlegur fjöldi þingmála frá ríkisstjórninni sem var um daginn í stöflum hér frammi. Þar er um að ræða mörg gríðarlega stór mál, fiskveiðistjórnarmál ríkisstjórnarinnar, rammaáætlun um virkjanir og verndun, mikilvæg mál um skuldir heimilanna og um stjórnarskrána. Það á að reyna að keyra sem mest af þessum málum í gegn. Forgangsröðunarlisti frá meiri hlutanum fæst ekki skoðaður eða ræddur. Það eru kvöld- og næturfundir fram undan og jafnvel, eins og gert var í gær, greidd atkvæði um að halda fund fram á rauðanótt ef á þyrfti að halda.

Mig langar að minna á það sem stendur í þingsályktunartillögu frá þingmannanefnd þingsins sem Alþingi samþykkti í september 2010 63:0. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Inn í þetta allt saman koma svo mál eins og var verið að ræða í morgun í fjárlaganefnd um Vaðlaheiðargöng sem eru eins og skrattinn úr sauðarleggnum með mjög sérkennilegum umsögnum og algjörlega þvert á öll fagleg vinnubrögð.

Samkvæmt dagskrá þingsins fram undan hefur þingið ekkert lært og vill ekki breyta neinu. Undantekning er þó málið sem ég heyrði af rétt áðan hjá hv. þm. Helga Hjörvar, um gagnsæi í afskriftum. Þar stígur þingið fram með eitt mál sem er af hinu góða en það gengur ekki lengur að vinna öll þessi stóru mál eftir dagskrá þingsins fram undan. (Forseti hringir.) Þingið verður að vinna öðruvísi og við verðum að gera betur með einhverjum hætti.