140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt rætt í morgun á fundi efnahags- og viðskiptanefndar og meðal annars farið yfir stöðuna í gengislánadómunum. Það eru ekki uppörvandi fréttir. Ef allt gengur eins og best verður á kosið verður hugsanlega komin einhver niðurstaða í málið í haust.

Hæstv. forsætisráðherra hefur farið mikinn bæði í umræðum í þinginu og í greinaskrifum um að formfestan og faglegu vinnubrögðin séu komin til að vera hjá ríkisstjórninni og hafi gengið einstaklega vel með þann þátt mála. Hún talaði sérstaklega um Icesave í því samhengi. Ég vek þess vegna athygli á því sem kemur meðal annars fram í bókinni Icesave-samningarnir – afleikur aldarinnar? að 3. júní 2009 spurði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hæstv. fjármálaráðherra um stöðuna í málunum og fékk eftirfarandi svar frá hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, með leyfi forseta:

„Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Virðulegi forseti. Þetta var 3. júní. 5. júní var skrifað undir samninginn. Það var að vísu einhver fundur í ríkisstjórninni þar sem menn voru ekki sammála í þessu máli og því síður í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég held að það skipti máli að menn skoði þetta í samhengi við það sem hæstv. forsætisráðherra segir núna, að formfestan sé komin til að vera. Hún talar um fagleg vinnubrögð. Það er það sem þetta þýðir. Þetta liggur allt fyrir. Þetta er það sem hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) er að meina og það er ágætt að skoða það í tilefni af umræðu um landsdóm.