140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er það alrangt að greiðsluaðlögunin sé ekki að virka. Hún virkar fyrir fullt af fólki, skilar hundruðum út úr greiðslujöfnun og inn í skil og til miklu betri vegar. Hún virkar ekki fyrir alla, það er alveg rétt, og vel getur komið til greina að bæta þessu úrræði við.

Fyrst er frá því að segja um frumvarp til laga um samningsveð, svokallað lyklafrumvarp sem hv. þingmaður spyr um, að umsagnarfresturinn rennur út á morgun. Þá fyrst getur nefndin tekið það til efnislegrar umfjöllunar.

Nú þegar hafa komið tvær umsagnir, annars vegar frá Fjármálaeftirlitinu sem gerir ekki athugasemdir við efnisatriði frumvarpsins og hins vegar frá Samtökum fjárfesta sem segja að breytt hegðun lánveitenda, hvort heldur er fjármálafyrirtækja eða lífeyrissjóða, sem frumvarpið hefði í för með sér mundi skerða óhóflega aðgengi almennings að lánsfé. Þetta er þeirra mat. Að mínu mati eru bæði kostir og gallar við þessa leið. Þetta styrkir stöðu fólks gagnvart fjármálafyrirtækjunum í samningum og nauðasamningum og er viðbót þar við greiðsluaðlögunina sem á ekki að tala niður. Það á að fagna því frábæra úrræði fyrir fólk í vanda sem hún er. Þótt hún hafi ekki gagnast öllum er hún frábært úrræði og hefur reynst mjög vel mjög mörgu fólki.

Við verðum að vanda til verka og gera okkur grein fyrir afleiðingunum af samþykkt slíks frumvarps. Eins og ég segi getur lyklafrumvarpið annars vegar bætt umtalsvert réttarstöðuna hjá fólki sem er í slíkum samningum en ef afleiðingarnar eru þær að aðgengi venjulegs fólks að lánsfé til húsnæðiskaupa skerðist óhóflega verðum við líka að meta afleiðingarnar af því. Að mínu mati er ekki hægt að útiloka að þetta frumvarp komi inn í þingið aftur og látið verði reyna á það hvort meiri hluti sé fyrir því í þinginu. Það kemur vel til álita að mínu mati og ég bíð spenntur eftir því að hefjast handa í nefndinni eftir morgundaginn þegar umsagnarfrestur er liðinn. Ég vona að það komi fleiri umsagnir en þessar tvær þannig að nefndin geti tekið efnislega afstöðu til frumvarpsins (Forseti hringir.) og mögulegra afleiðinga af samþykkt þess en það á ekki að útiloka það. Þetta úrræði bætist við flóru fjölmargra annarra úrræða fyrir fólk í skulda- og greiðsluvanda.