140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram þeirri umræðu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hóf og víkja að því sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu á síðasta sólarhring, að 2. ákæruliðurinn hafi verið sá alvarlegasti sem hafi verið borinn fram gagnvart hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Ég fór í það eftir að slíkar fullyrðingar bárust að lesa yfir ræðurnar og málsskjölin og það er hvergi að finna nein ummæli í þá átt að þessi ákæruliður sé talinn hinn alvarlegasti. Hefði það verið álit hv. þingmanna hefði mátt gera ráð fyrir því að það hefði komið fram í málflutningnum, m.a. á Alþingi. Það gerðist hins vegar ekki. Hv. þingmenn þögðu sem fastast um þetta mál en hefðu örugglega ekki gert það ef það hefði verið mat þeirra að þetta væri alvarlegasti ákæruliðurinn.

Síðan sjáum við líka í niðurstöðu dómsins mjög afdráttarlaust kveðið á um þetta. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um.“

Þær yfirlýsingar sem við höfum heyrt á síðasta sólarhring eru eftiráskýringar, tilraun til að skrifa upp söguna sjálfum sér í hag. Það vekur síðan sérstaka athygli að það er ekki gerð refsing í þessu máli og ég spyr: Segir það ekki allt sem segja þarf um hvaða augum landsdómur lítur þetta mál? Ég tel þess vegna að orð þeirra hv. þingmanna sem hafa látið falla orð í þessa veru sem ég hef þegar rakið hafi í raun ekkert efnislegt vægi þegar þessi dómur er túlkaður. Það er öllum ljóst að engum heilvita manni hefði dottið í hug að leggja af stað með þetta mál, ákæra og kalla saman landsdóm til að taka afstöðu til þess ákæruatriðis sem sakfellt var fyrir á endanum. Eftiráskýringar breyta engu um þetta. (Gripið fram í: Þetta er allt stjórnar… …)