140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í upphafi vil ég segja það við hv. þm. Magnús Orra Schram líkt og aðrir hafa sagt hér að það er meiri hluti í þessu landi, það er meiri hluti á Alþingi. Ef svo er ekki skal hv. þingmaður bara koma og segja það. (Gripið fram í.) Hv. þm. Magnús Orri Schram getur ekki kennt stjórnarandstöðunni um það dugnaðarleysi sem hrjáir hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (SER: Komdu bara aftur í stjórnarliðið.)

Ég vildi hins vegar ræða sama mál og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á áðan, þ.e. þá staðreynd að Íslendingar verða nú fyrir refsingum og þvingunum af hálfu Evrópusambandsins vegna makrílveiða. Tekjur vegna makrílveiða á síðasta ári námu um 25 milljörðum íslenskra króna. Nú er Evrópusambandið að undirbúa refsiaðgerðir gagnvart Íslendingum fyrir það eitt að vilja krefjast eðlilegrar hlutdeildar í þessum deilistofni. Þessar refsiaðgerðir fela það í sér að jafnvel á að setja löndunarbann á íslensk skip, bann á kaupum og sölu íslenskra skipa til og frá Íslandi, hafnarbann á íslensk skip í höfnum ESB-ríkja og jafnvel viðskiptabann á útgerðarvörur til Íslands.

Síðan kemur hæstv. utanríkisráðherra í ræðustól í byrjun vikunnar og segir að það sé mikilvægast í þessu máli að halda kúlinu. Ég held, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin þurfi að hætta að knékrjúpa fyrir Evrópusambandinu í öllum málum. Við horfum upp á það varðandi makrílinn. Við horfum upp á það í Icesave-málinu. Við horfum upp á það í hverju málinu á fætur öðru að ríkisstjórnin knékrýpur fyrir Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Nú þyrfti ríkisstjórn (Forseti hringir.) Íslands að fara að gera eitthvað meira en einungis að halda kúlinu því að það eru mikilvægir (Forseti hringir.) þjóðarhagsmunir hér undir sem utanríkisráðherra og ríkisstjórnin virðist ekki skilja. (SER: Hlustaðu þá á …)