140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Tilefni þessarar umræðu, eftir því sem mér skilst, er aðkoma ríkissjóðs að málefnum fyrirtækisins Farice á dögunum sem vitnað var hér til í ræðum málshefjanda og hæstv. fjármálaráðherra. Eins og réttilega hefur komið fram er fyrirtækið í meirihlutaeigu ríkisins, þ.e. með beinum hætti í gegnum Landsvirkjun, og því lá að sjálfsögðu beint við að ríkið kæmi að málum í erfiðleikum fyrirtækisins.

Í fyrirtækinu Farice hefur staðið yfir fjárhagsleg endurskipulagning allt frá árinu 2009 og á árinu 2010 sem í raun má segja að hafi lokið með gerð þess þjónustusamnings sem var gerður milli ríkisins og fyrirtækisins á dögunum. Það hefur verið dálítið villandi umræða í fjölmiðlum um hvað hefði gerst ef ríkið hefði ekki gripið til þess bragðs að leggja fyrirtækinu til fé og gera þjónustusamning við það þannig að það gæti staðið við skuldbindingar sínar. Því hefur jafnvel verið haldið fram að samstundis hefði verið lokað fyrir öll samskipti milli Íslands og umheimsins á þessu sviði en það er fjarri lagi. Það hefði ekki gerst. Tjónið sem hefði fyrst og fremst orðið af þessu, í það minnsta til að byrja með, er fjárhagslegs eðlis, hefði bæði sett fyrirtækið í ákveðið uppnám og ekki síst íslenska ríkið sem ábyrgðaraðila sem hefði þá þurft að taka á sig þær greiðslur sem einn af eigendum fyrirtækisins. Við látum það ekki gerast að greiðslur falli á ríkið sem fyrirtæki í þess eigu getur ekki greitt. Ég ætla að vona að við þingmenn séum allir sammála um það.