140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Ég held að mjög brýnt sé að taka þetta mál upp í sölum Alþingis. Það er mjög alvarlegt þegar við horfum ítrekað upp á dæmi eins og þetta koma upp í samfélaginu. Þá er gripið til eftiráreddinga.

Það er fróðlegt að skoða sögu þessa máls og aðdragandann að því. Öll fjármögnun og allt skipulag í kringum þetta hefur greinilega verið, vill maður segja, rugl frá upphafi til enda. Annað sem er merkilegt við þetta er að svo virðist sem þessi vitleysa öll, fjármögnunin á bak við þetta, samningarnir o.fl., sé algerlega skuldlaust í eigu þingflokks Samfylkingarinnar. Hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller setti þetta af stað hér rétt fyrir hrun. Þarna dúkkar líka upp nafn Vilhjálms Þorsteinssonar, sem er núverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem tengist óbeint inn í þetta.

Það vekur óneitanlega furðu þegar við erum að ræða þetta mál sem Samfylkingin á allt saman skuldlaust, þá fjármögnun á þessum hrunstreng, að ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna skuli síðan ganga í lið með Samfylkingunni við að verja aðdragandann í þessu máli.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við girðum fyrir að svona lagað gerist aftur og aftur með ríkisábyrgðum. Það er ljóst áður en menn fara af stað, ef menn kanna það gaumgæfilega, að svona skuldbindingar munu lenda á ríkissjóði fyrir rest. Við horfum upp á að ríkisstjórnin hefur ekki lært neitt af hruninu, í það minnsta er ótrúlegt að Samfylkingin (Forseti hringir.) og þingflokkur hennar sem talar alltaf um að flokkurinn sé búinn að læra af hruninu skuli ítrekað leggja það sama til og við erum að kljást við afleiðingarnar af hér.