140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

matvæli.

138. mál
[16:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um undanþágur frá matvælalöggjöfinni. Þetta mál hefur valdið nokkrum titringi í samfélaginu. Það voru þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu fyrst hér á haustþingi fram frumvarp þess efnis að rýmka reglur á þessu sviði. Seinna á haustþinginu kom stjórnarfrumvarp fram sama efnis þar sem var farin aðeins önnur leið að sama markmiði. Í meðförum atvinnuveganefndar og umsögnum sem atvinnuveganefnd fékk kom hins vegar fram að skynsamlegra væri að víkka enn frekar þessar undanþágur. Hér er frumvarpið komið og hefur farið í gegnum tvær umræður. Nú mun niðurstaðan leiða til þess að fólk getur bakað að vild sinni heima hjá sér og hægt verður að starfrækja bændamarkaði með eðlilegum hætti, allt eins og löggjafinn hefur sennilega alltaf viljað en ýmislegt hefur hins vegar þvælst fyrir, (Forseti hringir.) m.a. Evrópusambandsreglugerðir. [Hlátur í þingsal]. Nú getum við öll sameinast um að segja já og ég legg til að við gerum það.