140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

matvæli.

138. mál
[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að taka upp Evrópuumræður við hv. þm. Helga Hjörvar vegna þess að um þetta mál ríkir prýðileg sátt og verið að stíga mjög jákvætt skref. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á lagði Framsóknarflokkurinn fram frumvarp til breytinga í þessa veru. Mér sýnist atvinnuveganefnd hafa unnið málið prýðilega og í góðri sátt. Það er ánægjulegt að sjá að allir skuli geta stutt þetta mál, en það er ákveðið áhyggjuefni að þegar við hv. þingmenn ræðum hér ýmis mál, skulum við alltaf þurfa að ganga í allra lengstu átt þegar kemur að skriffinnsku, reglum, takmörkum og öðru slíku. Þetta mál er akkúrat dæmi um það þegar slíkt er tekið upp hrátt.

Ég vil fagna þessu máli og samstöðunni um það. Nú geta kvenfélög, íþróttasamtök og fleiri félög farið að baka fyrir kökubasara sumarsins. (Forseti hringir.)