140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Í frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um breytingu á fjölda og skipan lögregluumdæma og aðskilnað löggæslu frá starfsemi sýslumannsembætta, bakgrunnsathuganir og útgáfu öryggisvottana, hæfisskilyrði þeirra er starfa innan lögreglunnar auk annarra breytinga á lögreglulögum.

Það skal tekið fram að samhliða framlagningu frumvarps þessa er hafin á vegum ráðuneytisins, í náinni samvinnu við starfsmenn og hagsmunasamtök innan lögreglunnar, vinna við ýmis umbótaverkefni sem ætlað er að styðja við eflingu lögreglunnar með ýmsum hætti, svo sem varðandi skilgreiningu á grunnþjónustu, skiptingu fjárveitinga og aukið rekstraröryggi og framtíðarsýn lögreglunnar á grundvelli skýrrar stefnumótunar. Frumvarpið er mikilvægur þáttur í því umbótastarfi.

Fyrst vík ég að breytingum á skipulagi lögreglu.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að lögregluumdæmum verði fækkað úr fimmtán í átta. Þau verði óbreytt á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, en ný embætti verði á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi.

Umfangsmiklar breytingar á skipulagi löggæslunnar hafa orðið á undanförnum áratugum. Má þar helst nefna aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði árið 1992 og fækkun lögregluembætta úr tuttugu og fimm embættum í fimmtán árið 2007. Árangur af þeim skipulagsbreytingum sem tóku gildi árið 2007 var metinn góður af nefnd þáverandi dómsmálaráðherra, sem skilaði skýrslu um skipulagsbreytingarnar árið 2008. Nefndin benti þó á að breytingarnar hafi ekki verið nægilega róttækar til þess að tryggja sem besta nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu, sum lögreglulið væru fámenn, hlutfall stjórnenda hátt og markmið um sérstakar rannsóknarheimildir hefðu ekki fyllilega gengið eftir. Var það mat nefndarinnar að meiri stækkun lögregluembætta gæti enn aukið slagkraft lögregluliða. Í ljósi góðrar reynslu af fækkun lögregluumdæma var ákveðið árið 2009 að fara fyrir stofnanauppbyggingu innan lögreglunnar ásamt umdæma- og verkefnisskiptingu. Slík endurskoðun þótti brýn í ljósi erfiðra aðstæðna í fjármálum ríkisins og leita þurfti leiða til að þeir fjármunir sem veittir væru til löggæslu nýttust sem allra best.

Meginmarkmiðið með fækkun lögregluembætta er ekki síst það að komast hjá því að vegið verði að grunnþjónustu lögreglunnar með því að leita skynsamlegra leiða til að mæta lægri fjárveitingum með hagræðingu fremur en niðurskurði þjónustu. Með þessari breytingu er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið sem njóti styrks af stærri liðsheild með færri stjórnendum og verði hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið.

Heppilegt þykir að lögbinda ekki umdæmismörk, heldur verði ráðherra veitt heimild til að afmarka þau nánar í reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Rökin fyrir því eru að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Því gæti verið nauðsynlegt að hnika til umdæmum, til dæmis með sameiningu sveitarfélaga. Þá skal ákveðið í reglugerð hvar aðalstöð lögreglustjórans skuli vera staðsett. Tækniframfarir, bættur búnaður lögreglu, ekki síst fjarskiptabúnaður, og síaukin áhersla á sýnileika löggæslu, stuðlar að því að starfsemi lögreglunnar innan umdæmisins sé skipulögð með markvissum hætti þannig að löggæslu gæti sem víðast í umdæminu. Það verður hlutverk lögreglustjóra að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og verður það jafnframt ákvörðun lögreglustjóra hvaða starfslið hefur aðsetur á aðalstöð og öðrum varðstofum.

Loks er mælt fyrir um heimild til að skipa aðstoðarlögreglustjóra hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í stað skyldu líkt og nú er. Lagt er til að umdæmisbreytingarnar taki gildi 1. janúar árið 2015.

Vík ég þá að áhrifum ofangreindra breytinga á skipan lögreglurannsókna.

Það leiðir af ofangreindri tillögu frumvarpsins um fækkun lögregluumdæma að lagt er til að ákvæði um sérstakar rannsóknardeildir, sem starfræktar hafa verið í sjö af fimmtán lögregluumdæmum, verði fellt niður, enda er það óþarft þar sem lögreglurannsóknir munu framvegis samþættast almennu lögreglustarfi í hinum nýju umdæmum. Lögregluembættin eru betur í stakk búin vegna stækkunarinnar til þess að takast á við rannsókn sakamála innan síns umdæmis með skilvirkum hætti um leið og þau koma upp. Er við það miðað að lögregluliðin vinni saman að rannsóknum mála, svo sem tilefni er til á grundvelli reglna sem ráðherra setur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

Þá er mælt fyrir um að fella á brott þá heimild að koma á fót greiningardeild er leggi mat á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi í einstökum lögregluumdæmum, enda hvorki talið hagfellt né hagkvæmt að hafa fleiri en eina greiningardeild innan lögreglunnar. Heimildin hefur heldur ekki verið notuð.

Þá kem ég að aðskilnaði lögreglustjóra og störfum sýslumanna.

Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem komi í stað laga nr. 92/1989, um framkvæmdavald ríkisins í héraði. Þar er lagt til að sýslumannsembætti landsins verði átta talsins í samræmi við frumvarp þetta, en með frumvörpunum tveimur verður löggæsla skilin frá starfsemi sýslumanna. Er þessi tillaga meðal annars byggð á því að kröfur til löggæslu hafa aukist verulega á undanförnum árum og er mikilvægt að lögreglustjóri geti óskiptur sinnt verkefnum lögreglustjóra til að standa undir þeirri ábyrgð sem hann ber lögum samkvæmt.

Þá að bakgrunnsathugunum lögreglu og útgáfu öryggisvottana.

Í frumvarpinu er kveðið á um að embætti ríkislögreglustjóra annist bakgrunnsskoðanir og útgáfu öryggisvottana samkvæmt heimild í sérlögum, svo sem loftferðalögum og siglingalögum. Eðli sumra starfa er slíkt að löggjafinn hefur ákveðið að setja heimildir til handa lögreglu að bakgrunnsathuga þá einstaklinga sem til þeirra veljast í þeim tilgangi að staðreyna að trúverðugleiki þeirra verði ekki dreginn í efa. Benda má á 70. gr. c, loftferðalaga, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Nauðsynlegt er að skýrt sé hvaða aðili innan lögreglukerfisins annist þessar skoðanir og vottanir þegar sérlög kveða á um að veiting starfa eða aðgangur að aðstöðu eða upplýsingum sé háð útgáfu öryggisvottunar að undangenginni bakgrunnsathugun. Þannig annist embætti ríkislögreglustjóra bakgrunnsathugunar og útgáfu öryggisvottana, en þó yrði embættinu heimilt að fela lögreglustjórum að annast þetta.

Í bakgrunnsathugun felst að lögregla skoðar feril þess einstaklings sem um ræðir, svo sem sakavottorð, upplýsingar úr málaskrá lögreglu, alþjóðlegum gagnagrunnum, frá tollyfirvöldum, úr þjóðskrá og fleira. Það er gert með það að markmiði að kanna hvort eitthvað í fortíð viðkomandi einstaklings sé til þess fallið að draga trúverðugleika hans í efa þannig að varhugavert kunni að vera að fela honum tiltekið starf. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd bakgrunnsathugana.

Þá að hæfisskilyrðum þeirra sem starfa innan lögreglu.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra, aðstoðarlögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins. Í gildandi lögum er vísað til ákvæða laga nr. 92/1989, um framkvæmdavald ríkisins í héraði, sem svo vísar til dómstólalaga, nr. 15/1998. Rétt og eðlilegt þykir að kveðið sé á um hæfisskilyrði ofangreindra í lögreglulögum. Þá er gerð sú tillaga að lögreglustjóri skipi alla lögreglumenn nema yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna, þeir skuli skipaðir af embætti ríkislögreglustjóra. Eðlilegt er að sá sem ber ábyrgð á störfum annarra skipi starfsmenn, enda hefur það stjórnvald sem fer með skipunarvaldið jafnframt það hlutverk að veita áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá mun sérstakur saksóknari geta með sama hætti skipað lögreglumenn við embætti sitt.

Rökin fyrir því að færa ekki allar skipanir til lögreglustjóra í einu lagi eru annars vegar þau að heppilegra sé að gera breytingar að þessu leyti í áföngum og hins vegar það sjónarmið að mikilvægt er að haldið sé á skipunarmálum stjórnenda embættanna með samræmdum og tryggum hætti eftir að hin nýju sameinuðu embætti taka til starfa.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um það nýmæli að lögreglumenn og aðrir sem starfa innan lögreglunnar skuli ekki hafa gerst sekir um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem rýrt getur það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Sambærilegar kröfur eru gerðar til hæstaréttar- og héraðsdómara, sbr. lög um dómstóla nr. 25/1998 og fleira.

Við túlkun á því hvað telst refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti er litið til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Þar kemur fram að enginn teljist hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dóm um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar. Í 2. gr. sömu greinar kemur fram að dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og að refsing sé fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd. Af því leiðir að brot sem hefur flekkun mannorðs í för með telst vera svívirðilegt að almenningsáliti.

Þá vík ég að öðrum breytingartillögum frumvarpsins, fyrst varðandi aðstoðarríkislögreglustjóra.

Með frumvarpinu er mælt fyrir um að heimilt verði að skipa einn aðstoðarríkislögreglustjóra í stað tveggja nú. Er þessi tillaga gerð til þess að auka rekstrarlegt svigrúm embættisins.

Þá að eflingu samstarfs lögreglu og sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga. Í gildandi lögum er sambærilegt ákvæði, en með frumvarpinu er verið að aðlaga ákvæðið að breyttu skipulagi samkvæmt frumvarpinu. Er til dæmis lagt til að sveitarstjórar í þeim sveitarfélögum sem eru innan umdæmisins sitji í nefndinni í stað þeirra sem nú sitja í henni. Er það talið skilvirkara að hafa sveitarstjórana sjálfa í nefndunum.

Þá að leyfisveitingum.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um breytingar á ýmsum lögum sem miða að aðskilnaði lögreglustjóra og sýslumanna. Lagt er til að ýmsar leyfisveitingar sem nú eru í höndum lögreglu færist til sýslumanna, en raunin er að mikill fjöldi þessara leyfa hefur í reynd verið afgreiddur af almennum starfsmönnum sýslumannsembættanna.

Þá að innleiðingu breytinganna.

Í ákvæðum til bráðabirgða er mælt fyrir um undirbúning stofnunar nýrra embætta utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, skipun lögreglustjóra í nýjum embættum, réttindi og skyldur embættismanna sem og annarra starfsmanna við stofnun þeirra, auk þess sem unnið verður að skýrum starfsramma fyrir embættin frá stofnun sem miðast við ársbyrjun 2015. Hér er um að ræða mjög umfangsmikla skipulagsbreytingu á embættum lögreglustjóra í þeim tilgangi að efla lögreglu um allt land. Þarf góðan tíma til að vinna að þeim málum svo vel takist til.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.