140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það er tvennt sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um. Í fyrsta lagi um þær breytingar sem eru nú gerðar á því frumvarpi sem dagaði uppi árið 2010, á 138. löggjafarþinginu. Nú er lagt til að lögregluembættin verði átta í staðinn fyrir sex og einnig stendur í frumvarpinu að dregið hafi verið úr þeirri áherslu að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til einstakra lögreglustjóra.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið gert í ljósi þess að búið var að fara yfir umsagnirnar sem bárust um það frumvarp. Ég er kannski að leita eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra, hvort hann telji að verði minni átök, ef við orðum það sem svo, eða meiri samstaða um að fara þá leið sem hér er lögð til en þá í fyrra frumvarpinu.

Ég vil líka segja, burt séð frá því hvaða afstöðu maður hefur til málsins, að ég fagna því að lögin eigi í raun og veru að taka gildi 2015. Ég tel mjög gott að vinna vinnuna þannig í stað þess að láta breytingarnar taka gildi eftir nokkra mánuði án þess að útfæra þær. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir það.

Í öðru lagi vil ég spyrja um það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um hver væri í raun fjárhagslegur ávinningur af lagafrumvarpinu. Hvenær mun það liggja fyrir og verður ekki örugglega unnið úr því í meðförum nefndarinnar um málið áður en það verður endanlega samþykkt í þinginu?