140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:37]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Stefán heitinn Jónsson frá Möðrudal, listmálari og tónsnillingur, var einu sinni staddur á Eskifirði. Hann kvaðst hafa hitt fína frú sem átti tvær gjafvaxta dætur, glæsilegar og fagrar. Hann spurði móðurina hvort hún ætlaði ekki að fara að gifta dætur sínar Austfirðingum, nóg væri af efnilegum mönnum. Nei, svaraði móðirin, ég ætla til Reykjavíkur með mínar dætur svo þær geti hitt Íslendinga. Þeir voru ekki á Austfjörðum. Þeir voru ekki á landsbyggðinni.

Því miður, virðulegi forseti og hæstv. innanríkisráðherra, er margt sem er varhugavert í þessu frumvarpi. Fyrst og fremst kannski það að það miðar við að styrkja einingar lögreglunnar án þess að styrkja þjónustuna við fólkið. Á lögreglan að vera ríki í ríkinu eins og til að mynda embætti ríkislögreglustjóra? Eða á hún að vera þjónn fólksins?

Það er vandmeðfarið að túlka þetta og skilgreina þannig að ekki fari úr böndunum. Það eru fá dæmi þess undanfarna áratugi, virðulegi forseti, að breytingar á íslenska stjórnkerfinu, meðal annars svo viðamiklar og hér er talað um, hafi skilað árangri. Þær hafa skilað meiri kerfismennsku og öflugri kerfismaskínu. Það finnst mér vera hættan í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Það er auðvitað vel meint hjá hæstv. ráðherra að stjórnsýslan eigi að vera sterkari og meira alhliða, en hættan er sú, stóra hættan er sú að þetta sópist til Reykjavíkur eins og hjá fínu frúnni á Eskifirði. Það er hættan og það er stórhætta.

Um langt árabil hafa æðstu lögregluembætti ríkisins abbast út í sýslumannsembætti úti á landsbyggðinni, litið niður á þau og sýnt þeim lítilsvirðingu. Það hefur meira að segja gengið svo langt að þetta átti við líka um lögreglustjóraembættið í Reykjavík á tímabili. Þetta eru vítin sem þarf að varast. Það er að mínu mati stórhætta í frumvarpinu sem byggir á því að draga úr þjónustunni, draga úr nándinni, draga úr íslenskum stíl í samskiptum og skilningi þegar lýtur að þjónustu varðandi lögreglu og aðra þætti í opinberri stjórnsýslu. Það dregur úr eðlilegu svigrúmi þar sem nándin skiptir gríðarlega miklu máli, og reynsla og verksvit þeirra sem eiga að véla um mál og atburði svo vel fari og ekki fari úr böndum. Þetta er það sem þarf að huga að númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm, hæstv. ráðherra.

Það er ekki nóg að vera með góðar meiningar ef menn vita ekki nákvæmlega hvert er stefnt og hvar endastöðin verður sem þarf að vera ásættanleg og aðlaðandi fyrir samfélag okkar.

Það hefði kannski mátt fækka lögreglustjóraembættum allt að um helming, úr 24 í 12 eða þar um bil, en það er alveg augljóst að það að fækka þeim niður í átta embætti er of langt gengið. Þá er of langt gengið.

Þá má nefna ýmis dæmi um byggðarlög sem búa við sérstakar aðstæður vegna landfræðilegrar legu, ég tek sem dæmi bara á suðurkantinum Hornafjörð og Vestmannaeyjar. Jafnt má segja þetta um Norðausturland og hluta af Vestfjörðum. Talað hefur verið um að skynsamlegt væri að miða við að ekki væri nema 90 mínútna ferð, í mesta lagi, fyrir fólkið í landinu til að komast í samband og tengingu við lögreglufulltrúa eða sýslumannsembætti. Ég held að það sé hámark, en eins og miðað við þessa uppsetningu getur þetta orðið stórir dagpartar og jafnvel dagar eftir veðri og vindum. Það er ekki boðlegt í okkar samfélagi, vegna þess að það kostar að vera sjálfstæð þjóð, lítil þjóð með metnað og öryggi fyrir alla þegna í nafni jafnræðis. Það er grundvallaratriði að menn sitji við sama borð.

Líka er augljóst að miklu skynsamlegra er að halda til haga þeirri reynslu sem hefur komist á, í að minnsta kosti í þó nokkrum tilvikum, að halda því til haga áfram að slíta ekki í sundur á milli lögreglustjóra og sýslumanns. Það er bæði ódýrara og skynsamlegra. Af hverju ættum við ekki að hnýta það upp saman? Af hverju ættum við ekki að hegða okkur eftir því sem land okkar kallar á og þeim möguleikum sem það býður til að sinna öllu landinu með jafnræði? Það veit ég að hæstv. innanríkisráðherra vill hafa í heiðri og þess vegna dreg ég þessa þætti fram. Hann er þekktur fyrir það. Þá má líka leggja mikið á sig til að varast að hlutirnir fari úr böndum.

Það koma auðvitað margir vinnuhópar að málinu og til að mynda var bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, í einum slíkum hópi. Hann lagði mikla áherslu á að þetta yrði skoðað með þeim formerkjum að að minnsta kosti 90% íbúa landsins ættu möguleika á að sækja þjónustu embættis sýslumanns innan þjónustusvæðis á ekki lengri en 90 mínútna tíma. Ég vék að þessu og ég held að það sé skynsamlegt að skoða þetta til hlítar.

Það er líka mikilvægt að menn hleypi þessu ekki í þann farveg að yfirstjórnin á velúrpúðunum í Reykjavík hafi ekki færi á því að setja sandpappírspúða út á landsbyggðina og segja svo fyrir rest: Það borgar sig nú ekki að vera að tjalda þessu til. Þannig að þetta er vandmeðfarið mál og það er gott að hæstv. ráðherra ætlar að taka sér tíma í það, en eins og það stendur hér er það allt of mikil kerfismaskína. Við getum ekki horft fram hjá því að það er mjög mismunandi stíll í mannlífi og siðum í mismunandi landshlutum í landi okkar, mjög mismunandi. Það fer ekki bara eftir pólitík, það fer fyrst og fremst eftir fólki og ákveðnum siðum á hverjum stað. Það þarf að horfa til þess þegar slík kerfisbreyting er gerð eins og hér er boðuð.

Það þarf að tryggja styrk lögreglunnar sem þjóns almennings en ekki styrk lögreglunnar sem kerfismaskínu. Við eigum að leggja mikla áherslu á að verja þær byggðir sem landfræðilega þurfa að hafa öðruvísi tengingar en þær sem ríkja í mesta þéttbýlinu, þar sem menn geta einfaldlega tekið strætó til þess að fara til sýslumanns en þurfa ekki að ferðast um fjallvegi, firði og vegi loftsins. Þetta er það sem þarf að horfa til. Mér finnst auðsýnt að niðurstaðan í þessu er of mikil uppsetning embættismanna sem oft á tíðum, þótt þeir séu velviljaðir, miða einhvern veginn ósjálfrátt við það, meira og minna, að grugga ekki vatnið á eigin svæði, að þar sé kyrrt vatn og engin hreyfing. Það gefur nú ekki mikinn afla, hvorki í reynd eða í leynd. Þetta eru svo einfaldar uppsetningar að menn eiga að skilja það í veiðimannasamfélagi eins og við búum í. Það eiga menn að skilja.

Maður hefur oft rekið sig á það í nefndum heima og heiman að þar koma ágætismenn, embættismenn, sem passa sig að þegja og þegja og þegja af því að það truflar þá ekki þeirra starf. Þetta er alveg það sama, virðulegi forseti, og á sér stað í samfélagi okkar í dag í dómskerfinu.

Góð eru dæmin síðustu daga þar sem dómarar fara að gera sig mektuga. Prófessorar fara að gera sig mektuga. Sérfræðingar í skólakerfinu fara að gera sig mektuga og segja jafnvel að það sé skandall að forsætisráðherra eins lands haldi ekki fundi um mikilvæg mál með sinni ríkisstjórn. Hverjum hér inni, virðulegi forseti, dettur í hug að forsætisráðherra, hvaða ríkisstjórnar sem er, haldi ekki fundi um merkileg mál? En þessir mektugu menn, þekktustu prófessorar landsins í lögum, þeir segja jafnvel að þetta gangi ekki. Vita ekki þessir menn, sem hafa áratugum saman verið í stjórnsýslunni, a.m.k. við hlið hennar, að mörg mál á vettvangi ríkisstjórnar eru svo viðkvæm að nánast er ekki hægt að fjalla um þau formlega? Hæstv. innanríkisráðherra veit auðvitað eins og allir þingmenn hér að það geta verið svo viðkvæm mál, sérstaklega öll mál sem varða fjármagnsstreymi og fjármál, sem er mjög vandasamt að fjalla um og stundum nánast skylt að þegja frekar en segja vegna þess að það getur skipt sköpum í meðferð og tengingu við fjármálakerfið og allt gæti farið úrskeiðis ef menn færu ekki varlega. Nei, nú á að setja þetta á dagskrá, nú á þetta að fara í fjölmiðla, hver einasti fundur og hver einasta vangavelta og hvað skeður þá? Fjandinn verður laus, lausari en nokkru sinni fyrr.

Þetta er hluti af þessu dæmi öllu sem við þurfum að huga vel að. Ég vil hvetja hæstv. innanríkisráðherra til þess að fara nú ekki fram úr því sem heitir íslenskt kerfi og íslenskur metnaður og þjónusta við okkar fólk. Ég er sannfærður um að það er ekki vilji hæstv. ráðherra og þess vegna þarf að taka tillit til landfræðilegrar sérstöðu landsins með miklu meiri skilningi en gengið er út frá í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Lausnir geta verið margs konar, en þetta þarf að skilgreina og hnýta upp þannig að það sé bæði skynsamlegt og hagkvæmt.