140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það verður sennilega seint sagt um mig að ég sé mikill áhugamaður um það að sameina stofnanir á landsbyggðinni, einfaldlega vegna þess að reynslan er ólygnust og hún hefur kennt manni það, því miður, að þetta hefur mjög oft valdið því að dregið hefur úr þjónustu, sérstaklega starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Við höfum mörg hver barist fyrir því árum saman að auka vægi hinnar opinberu þjónustu á landsbyggðinni, bæði til að styrkja þessa þjónustu sem er auðvitað aðalatriðið og síðan hitt líka að með þessu viljum við reyna að tryggja að sú starfsemi sem ríkið stendur fyrir og er mjög stór hluti af atvinnustarfseminni í landinu, í gegnum stjórnsýsluna, embætti, stofnanir og allt mögulegt, þarf líka að eiga sér stað utan höfuðborgarsvæðisins til að tryggja eðlilega atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Við sjáum það hins vegar á tölum sem við höfum til reiðu að þetta hefur gengið illa. Ríkið sem er stærsti einstaki atvinnuveitandinn í landinu hefur fyrst og fremst lagt áherslu á þessa atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og meðal annars þess vegna hefur hallað á landsbyggðina í gegnum tíðina.

Þetta atriði skiptir máli. Það er hlutur sem menn eiga líka að hafa í huga þegar við ræðum þessa hluti, jafnvel þó að við kunnum að vera öll sammála um að við þurfum að tryggja það númer eitt auðvitað að þær stofnanir sem við erum með á vegum ríkisins séu sem virkastar og nái sem bestum, faglegustum árangri eins og stundum er kallað og raunar kannski fjárhagslegum líka þó að ég sé alveg sammála því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði áðan. Ég held að reynslan sýni okkur að margar þær sameiningar sem menn hafa gripið til, t.d. úti á landsbyggðinni, hafi skilað mjög hæpnum fjárhagslegum árangri. Menn hafa stundum reiknað sig upp í mikinn árangur í þessum efnum, t.d. þegar hér var verið að sameina ráðuneyti. Við sjáum ótal dæmi um að sameiningar sem menn nánast lofuðu að mundu leiða til fjárhagslegs ávinnings hafa ekki gert það. Síðan hefur þjónustan orðið með öllum mögulegum hætti.

Það er kannski rétt að rifja upp eina sögu eins og hv. þm. Árni Johnsen gerði. Ég man þegar hrinan stóð yfir í að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum eða áratugum. Þá sagði einn mætur maður úr Djúpinu: Gallinn við sameiningu hreppanna er einfaldlega sá að það fækkar fyrirmönnum í héraði.

Kannski er það ein skýringin á því hvernig komið er, þessum fyrirmönnum í héraði sem voru til staðar til að verja stöðu byggðanna og benda á ýmsa hluti og leggja inn í ákvarðanatökuna sína miklu reynslu hefur fækkað. Það væri fróðlegt að velta því aðeins betur fyrir sér og líka í samhengi við það frumvarp sem við erum núna að ræða.

Ég vil segja strax að ég tel að þetta frumvarp sem við sjáum hérna sé veruleg bót frá því sem var þegar upphaflegt frumvarp var lagt fram, að ég hygg á árinu 2009. Þá var gert ráð fyrir því að stíga miklu stærra skref. Þá áttu þessi lögreglustjóraembætti að fara niður í sex. Það voru líka uppi hugmyndir um að gera landið að einu lögregluumdæmi. Það held ég að hefði verið ákaflega mikið feigðarflan og mjög vont skref. Ég fagna út af fyrir sig þeirri stefnumótun sem kemur þó fram í þessu frumvarpi, að það er að minnsta kosti ljóst að af hálfu hæstv. innanríkisráðherra er ekki áhugi fyrir því að gera landið allt að einu lögregluumdæmi sem var mjög mikið þrýst á. Ég tel líka að það sé mjög til bóta sem kemur þó fram í þessu frumvarpi, að horfið er frá hinum stórkarlalegu hugmyndum að sameina lögreglustjóraembættin niður í sex. Þar var til dæmis gert ráð fyrir því að Vestfirðir og Vesturland yrðu í einu slengi, eitt lögregluumdæmi. Það sjá allir bara af landfræðilegum ástæðum að það hefði verið algjörlega galið. Hæstv. innanríkisráðherra segist hafa tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram, m.a. hér í þinginu, frá okkur ýmsum hv. þingmönnum, og síðan auðvitað í þeim umsögnum sem síðar bárust. Ég man eftir því líka að sveitarfélögin og sveitarstjórnarmennirnir voru með mjög alvarlegar viðvaranir við þeim hugmyndum sem þarna komu fram.

Ég fagna því líka að í þessu frumvarpi er lagt af stað af ákveðinni rósemi í þeim skilningi að ekki er gert ráð fyrir því að þessi lög taki að fullu gildi fyrr en um áramótin 2014/2015. Sömuleiðis tel ég það skipta mjög miklu máli, og aðrir hæstv. ráðherrar mættu taka sér þetta til fyrirmyndar, þegar hæstv. ráðherra sagði áðan að hann legði ekki áherslu á að þessi mál, bæði þetta mál og síðan hugmyndir um sameiningu sýslumannsembættanna, yrðu afgreidd úr þinginu í vor. Ég bið til dæmis hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka sér þetta til fyrirmyndar. Ég vildi biðja hæstv. forsætisráðherra að taka sér þetta til fyrirmyndar í þeim málum sem hæstv. ráðherrar eru nú að reyna að þröngva í gegnum þingið á methraða og langt yfir leyfilegum hraðamörkum í pólitíkinni.

Þó kemur í þessu frumvarpi fram að hæstv. ráðherra fær heimild í bráðabirgðaákvæði til að ganga til sameininga lögreglustjóraembætta. Það segir í III. bráðabirgðaákvæði, með leyfi virðulegs forseta, að ráðherra sé heimilt, „sé slíkt unnt, að sameina embætti lögreglustjóra í einstaka umdæmi í samræmi við það skipulag sem kveðið er á um í 3. gr. laga þessara, að gættum ákvæðum til bráðabirgða I–II í lögum þessum“.

Hérna er verið að opna á ákveðna heimild. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur hæstv. ráðherra í þessum efnum? Er eitthvert sérstakt tilefni sem verður til þess að hæstv. ráðherra setur það inn í bráðabirgðaákvæði III að það sé ástæða til að hafa heimild til að ganga til sameininga á lögreglustjóraembættum? Eru aðstæður á einhverjum sérstökum stöðum þannig að hæstv. ráðherra telji að það væri hægt að gera þetta án þess að hafa þetta tilhlaup til 1. janúar 2015 eins og almennt er gert ráð fyrir í frumvarpinu? Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér alveg grein fyrir þessu.

Í annan stað getum við auðvitað ekki rætt þessi mál nema í samhengi við það frumvarp sem verður rætt hér á eftir sem lýtur að sameiningu sýslumannsembættanna. Það kemur fram í greinargerð sem fylgir því frumvarpi að 13 sýslumenn fari núna með lögreglustjórn í landinu. Ef við tökum ákvörðun um að fækka lögregluumdæmum mun það hafa áhrif á stöðu sýslumannsembættanna. Það mun líka hafa áhrif á stöðu sýslumanna. Það mun hafa áhrif á stöðu starfsfólks sem vinnur í þeim stofnunum sem núna eru sameinaðar.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því í þessu sambandi, af því að ég nefndi að núna fara 13 sýslumenn með lögreglustjórn og ef ég man rétt eru 24 sýslumenn í landinu, að allmyndarlegur hópur sýslumanna fer ekki með lögreglustjórn. Ég vek athygli á þessu í því samhengi að í greinargerð með þessu frumvarpi um sameiningu lögreglustjóraembættanna er gert ráð fyrir því, væntanlega í góðri trú, að þeir lögreglustjórar sem starfa í dag og eru þá í mjög mörgum tilvikum líka sýslumenn muni njóta forgangs til áframhaldandi starfa við lögreglustjórn.

Þá vaknar auðvitað líka spurning sem skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi. Til dæmis á Vestfjörðum og Vesturlandi starfa sýslumenn sem ekki eru um leið lögreglustjórar. Á Vestfjörðum eru fjögur sýslumannsembætti, á Patreksfirði, Ísafirði, í Bolungarvík og á Hólmavík. Sami sýslumaðurinn er sem einstaklingur starfandi á Ísafirði sem er bæði fyrir Ísafjörð og Barðastrandarsýslu en tveir sýslumenn þar eru ekki lögreglustjórar, í Bolungarvík og á Hólmavík. Þá vaknar spurningin: Hver er staða þeirra eða annarra sýslumanna í svipaðri stöðu gagnvart því að sækja um starf lögreglustjóra? Það veldur þarna heilmikilli röskun og breytingu sem ég tel nauðsynlegt að taka tillit til. Þurfa menn þegar þeir skoða þessa hluti ekki líka að taka tillit til stöðu sýslumanna sem hafa haft í fyrndinni það hlutverk að vera líka lögreglustjórar en eru það ekki lengur? Þarf þá ekki líka þegar málin eru skoðuð að skoða þetta í víðara samhengi með sýslumönnunum jafnframt sem ekki eru þá endilega starfandi lögreglustjórar?

Það kom fram áðan og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að horfið sé frá þeim hugmyndum sem uppi voru áður og fyrr og komu meðal annars fram í fyrstu útgáfu þessa frumvarps árið 2009, að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til sýslumanna. Hæstv. innanríkisráðherra svaraði því áðan þannig að það hefði verið horfið frá því með hliðsjón af þeirri reynslu sem menn hefðu þegar fengið og þeim athugasemdum sem hefðu borist við þessar hugmyndir.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað er hér á bak við? Hvað gerir það að verkum að horfið er frá þeim hugmyndum að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til sýslumanna á landsbyggðinni? Hæstv. ráðherra vísar til athugasemda. Hæstv. ráðherra vísar til einhvers konar reynslu sem hafi fengist. Nú vil ég spyrja hvað geri það að verkum að hæstv. ráðherra telur þetta ekki ráðlegt.

Ég er líka að horfa á það í þessu samhengi að nú er verið að fækka þessum embættum, sýslumannsembættunum og lögreglustjóraembættunum, og þar með ættu að gefast möguleikar á því að yfirtaka verkefni sem menn hafa hingað til sagt að ættu ekki heima hjá litlum sýslumannsembættum og það þyrfti ákveðna stærð af embættum til að reka alls konar starfsemi sem menn hafa kallað eftir að mætti flytja út á land. Sýslumannsembætti eru á margan hátt mjög kjörinn vettvangur til slíkra verkefnatilflutninga. Sýslumennirnir fara með margs konar verkefni, eins og kemur meðal annars fram í þessu frumvarpi sem við ræðum hér á eftir.

Í ljósi þess að nú erum við að stækka lögregluembættin í landinu spyr ég hvort ekki sé einmitt tækifæri til að færa til þeirra ný verkefni. Ég hef ekki á takteinum hvaða verkefni það ættu svo sem að vera, hef ekki þekkingu á því, en er þá ekki ljóst að þarna eru einmitt tækifæri, vegna stærðar nýju lögregluembættanna, til að færa til þeirra ný verkefni?

Í greinargerð frumvarpsins er síðan rætt talsvert mikið um þá röskun sem verður á hag starfsmanna. Ég er sammála því sem mér finnst koma fram í þessari greinargerð. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur mjög þessi mál á bak við eyrað þegar svona mál eru gerð. Hæstv. ráðherra vekur í þessari greinargerð athygli á að þetta muni óhjákvæmilega valda röskun á högum margra starfsmanna. Í greinargerðinni er síðan sagt að við framkvæmd þessara breytinga þurfi að huga að því að lágmarka þessa röskun og reyna að takmarka uppsagnir eins mikið og hægt er.

Hvað er hæstv. ráðherra hér með í huga? Má gera ráð fyrir því þegar þessi sameining fer fram eftir tvö ár að þá sé hugmyndin ekki sú að segja upp starfsmönnum? Ætla menn að reyna að gera einhverja samninga sem tryggja það eða hvað eru menn með í huga?

Af því að ég tók líka eftir því að hæstv. ráðherra reyndi að tala niður allar hugmyndir manna um að þetta gæti leitt til mikils sparnaðar geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé að vísa til einhverra slíkra hluta, fyrir nú utan að í þessari greinargerð kemur líka fram að hugmyndin sé að veita starfsmönnum aðstoð sem þeir þurfa á að halda, tryggja þeim lögfræðilega ráðgjöf o.s.frv. sem ég tel til fyrirmyndar að hæstv. ráðherra nefni í þessu samhengi.

Að öðru leyti vil ég segja að það vekur dálitla undrun að í umfjöllun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er þetta frumvarp nokkuð gagnrýnt svona undir rós. Þar er sagt að ekki hafi farið fram nein greining á fyrirkomulagi nýrra lögregluumdæma, það liggi ekki fyrir neinar rekstraráætlanir, það liggi ekki fyrir mat á mögulegum biðlaunarétti og sagt að það kynni að hafa verið heppilegra að eitthvað af þessu hefði verið framkvæmt áður en lagafrumvarpið færi í gegn. Fjárlagaskrifstofan segir jafnframt í greinargerð sinni að þar sem þessar forsendur liggi ekki fyrir af hálfu hæstv. innanríkisráðherra og ekki neinar rekstraráætlanir, neinar stjórnsýslugreiningar o.s.frv. sé ekki hægt að meta fjárhagsleg áhrif á lögfestingu frumvarpsins.

Ég sé auðvitað að hæstv. ráðherra er að boða að þetta mál eigi að taka sinn tíma. Nú fer það sem sagt í umsagnarferli hjá þeirri nefnd sem fer með málið og þá skýrist þetta og þá er kannski fyrst tilefni til að skýra málin.

Engu að síður spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann bregðist við þessari gagnrýni sem sannarlega kemur fram af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Ég tek út af fyrir sig undir það að það er skynsamlegt að fara sér hægt í svona breytingum. Það er engin spurning um að það er skynsamlegt í þessum efnum. Ég vakti þó athygli á því að ekki er allt sem sýnist í þessu. Það er opin heimild fyrir hæstv. ráðherra til að fara til sameininga sem við vitum ekki hvernig eiga að vera. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari mér á eftir þannig að okkur sé þetta betur ljóst.

Þetta gerir það líka að verkum að í þessu bráðabirgðaákvæði er opnað á að hæstv. ráðherra geti breytt umdæmismörkum. Hér eru þau reyndar skilgreind nákvæmlega í 3. gr. frumvarpsins. Það er hins vegar opnað á það að í samstarfi við meðal annars sveitarfélög megi breyta þessum umdæmismörkum.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Býr hér eitthvað að baki? Eru einhverjar hugmyndir í þessum efnum sem hafa komið fram sem gefa hæstv. ráðherra tilefni til (Forseti hringir.) að þurfa að kalla eftir þessari heimild frá Alþingi til að geta breytt umdæmismörkum?