140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:12]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þetta sem ég óttast mjög mikið. Við þekkjum það að glæpir eru að aukast mjög mikið á Íslandi og það er þekkt að ýmis glæpasamtök hafa fest hér rætur. Þegar þrengir að þeim á höfuðborgarsvæðinu óttast ég að þau fari að renna hýru auga til landsbyggðarinnar, að öryggi borgaranna verði ekki tryggt og menn sjái kannski fýsileika í því að ráðast að byggðarlögum þar sem vitað er að engin löggæsla er. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga. Þó að það sé lögreglustjóri í ákveðnu umdæmi óttast ég að löggæslan á hverjum stað verði ekki næg til að tryggja öryggi borgaranna. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga.

Ég vil ræða við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson þar sem hann þekkir mjög vel til á Vestfjörðum. Þar koma samgöngur mjög mikið inn í þetta, eins og í Barðastrandarsýslu, á Patreksfirði og þessum stöðum. Ef ekki eru tryggar samgöngur yfir til Ísafjarðar og annað slíkt óttast ég að þegar fram líði verði öryggi borgaranna á þessum stöðum ekki tryggt. Ég hef áhyggjur af þessu.