140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að við hv. þingmaður erum alveg sammála um eitt; það að við viljum færa sem mest af verkefnum sem núna eru í Reykjavík út á land. Ég held að við séum líka sammála um annað, það að við viljum hins vegar ekki færa glæpina út á land, þeir mega vera einhvers staðar allt annars staðar og eiga hvergi nokkurs staðar heima.

Að öðru leyti vil ég segja að þegar menn skoða þessi mál verða þeir að hafa í huga landfræðilegar og samgöngulegar aðstæður. Sami lögreglustjórinn og í rauninni sami sýslumaðurinn er fyrir bæði Ísafjörð og Barðastrandarsýslu. Hann situr núna á Ísafirði og rekur sín lögregluembætti og ég veit að hann gerir það vel. Það er ekki hægt að samreka með sama hætti lögreglustarfsemina á sunnanverðum Vestfjörðum og norðanverðum Vestfjörðum því að það eru engar samgöngur þar á milli stóran hluta ársins. Þetta er nokkuð sem menn verða einfaldlega að horfast í augu við. Þó að menn sameini yfirstjórnina og hafi þessi lögregluembætti stór og láti þau ná yfir stærri landsvæði verður lögreglumannastarfsemin á þessum einstöku svæðum eftir sem áður að vera til staðar.

Það er mjög mikilvægt að frá þessu sé gengið strax í upphafi. Ég tel þess vegna að það sé einn hlutinn af því sem menn verði að skoða á þeim missirum sem fara í hönd ef þetta frumvarp verður samþykkt, sem verður þá aldrei úr þessu fyrr en kannski undir áramótin, að menn geri sér strax grein fyrir þessu og gangi það tryggilega frá því að menn geti treyst þessu. Það er líka annað sem við þekkjum, þetta byrjar allt voðalega vel og menn hafa þetta allt saman í nokkuð góðu lagi í upphafi. Þegar fer síðan að þrengja að vitum við hvernig menn gera, menn skera alltaf niður fjærst sér eins og við sjáum að stjórnsýslan gerir gagnvart landsbyggðinni og þess vegna, virðulegi forseti, árétta ég það og vil beina því líka til hæstv. innanríkisráðherra að frá þessum málum verði mjög vel og tryggilega gengið.