140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum. Ég fagna því hvernig þetta mál er sett upp, þ.e. þeim markmiðum um að frumvarpið taki gildi í upphafi árs 2015. Það tel ég vera til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir aðra hæstv. ráðherra því að þann stutta tíma sem ég hef setið á þingi hefur mér fundist því mjög ábótavant að hér koma hæstv. ráðherrar með mál á síðustu dögum eða vikum þingsins og vilja láta klára þau í einu hendingskasti og hafa oft og tíðum verið gerð mikil mistök við slíka lagasetningu. Ég tel að þessi vinnubrögð séu til fyrirmyndar og mættu margir hæstv. ráðherrar taka hæstv. innanríkisráðherra sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Ég fagnaði því líka þegar hæstv. ráðherra sagði að hann hygðist leggja málið fram, senda það til nefndar, senda það til umsagnar og síðan að taka málið til afgreiðslu í haust. Þau vinnubrögð eru til fyrirmyndar í stað þess að keyra mál í gegn eins og ég vék að áðan.

Ég vil líka gera að umtalsefni ummæli ráðherra hér áðan þar sem hann varaði við því menn gerðu sér of miklar væntingar um sparnað vegna þessarar hagræðingar og breytinga. Það er mjög mikilvægt að gera það vegna þess að í gegnum tíðina, þegar menn hafa reynt að koma málum í gegnum þingið, hafa verið gefnar upplýsingar um ætlaðan sparnað við sameiningar á stofnunum sem standast engan veginn, enda staðfestir skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem kom út fyrir ekki svo löngu síðan, að þau áform ganga ekki eftir í 85% tilfella. Ég tel því mjög mikilvægt að menn tali þá raunsætt um málin, hvaða vonir þeir gera sér um að hagræðingin muni skila miklum sparnaði þannig að þeir keyri ekki mál í gegnum þingið á einhverjum fölskum forsendum eins og oft hefur verið gert. Þau sparnaðaráform hafa sjaldnast gengið eftir sem upp er lagt með í frumvörpunum.

Ég geri í sjálfu sér ekki alvarlegar athugasemdir við það sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið vegna þess að hæstv. ráðherra sagði: Við munum leggja frumvarpið fram að nýju í haust eftir að málið hefur farið til umsagnar. Þá ber ég væntingar til þess að fram komi fram í umsögnum hvaða augljósir annmarkar eru á málinu og að hæstv. ráðherra og ráðuneytið muni taka tillit til þess þegar þeir leggja fram nýtt mál. Þá mundi ég telja æskilegt, og ég geri auðvitað ráð fyrir því, að þá muni koma fram kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofunni. Þess vegna geri ég ekki athugasemdir við umsögnina vegna þess að þetta kom mjög skýrt fram í máli hæstv. ráðherra. Ég geri heldur ekki athugasemdir við að málið fari í þennan farveg. Ég hefði annars gert alvarlegar athugasemdir við það ef svörin hefðu verið loðin um hvort málið yrði klárað á þessu þingi eða á því næsta.

Síðan vil ég aðeins koma inn á það sem rætt hefur verið í þessari umræðu, þ.e. um hagræðingu og sparnað, að við höfum svo sem oft kvartað yfir því hér, hv. þingmenn landsbyggðarinnar, að það er alltaf höggvið í sama knérunn og skorið niður í þeim embættum sem eru úti á landsbyggðinni. Að lokum er sagt: Þetta embætti er orðið svo fámennt og lítið af því að það er búið að skera þar niður að það er ekkert vit í öðru en að leggja það niður, af því að þessi eini eða tveir starfsmenn eru orðnir svo einangraðir faglega og það gengur ekki upp, það þarf að setja þetta í stærra samhengi.

Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að íhuga það mjög vandlega að færa fleiri verkefni til lögreglustjóranna og sýslumannanna, sem er mál sem er til umræðu hér og er næst á dagskrá. Þetta eru skyld mál. Sagan segir okkur nefnilega að oft hefur tekist einstaklega vel að færa til verkefni. Ég get nefnt mörg dæmi um það og án þess að halla á neinn nefni ég sýslumannsembættið á Blönduósi sem tekið hefur að sér ákveðin verkefni og hefur staðið sig með einstökum sóma. Það er alltaf verið að fjölga þeim verkefnum sem það embætti fær vegna þess að þar hefur þetta gengið vel. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til þess að færa þessum embættum verkefni.

Til að undirstrika það sem ég segi og til að ekki sé alltaf talað um eitthvert kjördæmapot vil ég nefna eitt dæmi úr ákveðinni undirstofnun hæstv. ráðherra. Þannig var mál með vexti að þegar Umferðarstofa stofnaði útibú í Stykkishólmi voru ráðnir þar tveir starfsmenn, og hver er staðan í dag? Það er búið að taka annan og færa hann til Reykjavíkur. Þannig er reynslan af þessu og þess vegna hef ég uppi varnaðarorð gagnvart því að höggva alltaf í sama knérunn í þeim niðurskurði sem nú er.

Fram kom á fundum hv. fjárlaganefndar fyrir um einu og hálfu ári síðan, við fjárlagagerðina 2011, að það væri hugsanleg skekkja í reiknilíkaninu gagnvart þeim lögregluumdæmum sem væru landfræðilega mjög stór. Menn höfðu grunsemdir um að reiknilíkanið sem reiknaði út fjármagnið sem fara skyldi til hinna stóru lögregluumdæma væri skakkt. Fram kom af hálfu fulltrúa ráðuneytisins að til stæði að skoða það sérstaklega. Þess vegna inni ég hæstv. ráðherra eftir upplýsingum um hvort það hafi verið gert og ef svo er þá hvar sú vinna stendur, því að eins og við þekkjum er það orðið afskaplega dýrt að gera út bíla. Ein af þeim ábendingum sem fram hafa komið varðandi stóru lögregluumdæmin er að uppfæra þyrfti reiknilíkanið þannig að það gætti jafnræðis í þeim fjárveitingum sem fara til viðkomandi lögregluumdæma.

Þá kemur upp í huga mér það sem stendur mér næst og þar ég þekki best til, þ.e. þegar lögregluumdæmið í Borgarfirði og lögregluumdæmið í Dölum voru sameinuð. Þá var niðurstaðan sú að skorið var niður og eina lögreglumanninum í Búðardal var sagt upp. Einn hv. þingmaður fór yfir það áðan hvað hefði í raun gerst þarna og hvað það þýddi þegar þarna væri kannski klukkutímaakstur á milli staða, ég tala nú ekki um á vetrum ef eitthvað kemur upp á.

Við getum líka sett það í samhengi við hvaða þýðingu svona niðurskurður hefur þegar við ætlum að byggja upp og efla ferðaþjónustuna. Hæstv. innanríkisráðherra veit hvernig vegakerfið í Dalasýslu er á mörgum stöðum og þetta er auðvitað mjög bagalegt vegna þess að lögreglumennirnir eru oft þeir fyrstu sem koma að slysum ef óhöpp verða. Það er því mikilvægt að við áttum okkur á því að gæta að jöfnum rétti íbúanna til þessarar þjónustu eins og annarrar þjónustu svo ekki halli á þá í þessum efnum.

Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi við vinnslu málsins í vor og sumar og fyrir haustið áður en hann leggur fram nýtt mál, hvort sem það verður óbreytt eða hvernig sem það verður, að sýna frekar á spilin varðandi þá reglugerðarheimild sem er í frumvarpinu um hvar aðalstöðvar lögreglustjórans skuli vera og eins hvar varðstofur skuli vera starfræktar. Ég tel mikilvægt að það verði gefið upp þegar frumvarpið kemur aftur til umræðu.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í hverju lögregluumdæmi skal starfa ein eða fleiri samstarfsnefndir um málefni lögreglunnar. Í samstarfsnefnd skulu sitja lögreglustjóri viðkomandi lögregluumdæmis, sem jafnframt er formaður hennar, og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu eða eru á því svæði þar sem nefndin starfar. Fundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.“

Ég þekki það ekki og þess vegna spyr ég: Er þetta nýtt ákvæði inn í lögin eða er þetta í eldri lögum? Ég tel að það sé mjög jákvætt að draga að heimamenn, sérstaklega framkvæmdastjóra sveitarfélaganna, til þess að koma að þessum málum þannig að þetta er fagnaðarefni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég mun auðvitað fara yfir þær umsagnir sem koma þegar málið kemur úr nefnd, en ég ætla að enda mál mitt á því að fagna því að stigið hafi verið skref í jákvæða átt í þessum efnum, þ.e. að fara úr sex lögregluumdæmum upp í átta. Hvort það er nægilega stórt skref veit ég ekki, það kemur í ljós í meðförum nefndarinnar, en ég tel að það hafi verið gert í samræmi við þær athugasemdir sem fram komu og þess vegna sé farin sú leið að fjölga lögregluumdæmunum úr sex í átta. Eins kemur fram í frumvarpinu að dregið verði úr þeirri áherslu að færa verkefni á milli einstakra lögregluembætta.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég fagna því hvernig staðið er að þessu máli, að þær áherslur sem hæstv. ráðherra hefur komi skýrt fram, líka hugmyndir varðandi afgreiðslu málsins. Það mættu margir taka það sér til fyrirmyndar.