140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota tækifærið í andsvari til að fagna því síðasta sem kom fram í lokaræðu hæstv. innanríkisráðherra. Það er auðvitað nokkur léttir að heyra að ráðherra er ekki að þrýsta á um að málið verði klárað á þeim örfáu vikum sem eftir eru af þessu þingi. Ég held að ég geti lýst mig sammála því verklagi ráðherra að fara af varfærni í breytingar á þessu sviði og leggja fremur áherslu á vandaðan undirbúning og aðlögun frekar en að keyra mál í gegn með látum eins og stundum er reynt. Ég fagna því að þingið fái tækifæri til að fjalla um þetta, ekki bara á þeim fáu vikum sem nú eru til vors heldur einnig næsta vetur.

Þær hugmyndir sem hér koma fram eru ekki að öllu leyti óþekktar. Eins og fram hefur komið var frumvarp hér til umræðu fyrir tveimur árum sem gekk að nokkru leyti í sömu átt. Ég vildi segja við þessa umræðu að ég tel að þær breytingar sem er að finna í þessu frumvarpi séu til bóta miðað við frumvarpið sem þá lá fyrir. Ég held að almennt sé stigið til jarðar af meiri varfærni hér, en eins og fram hefur komið í umræðunni í dag eru sérstaklega uppi áhyggjur af fækkun embætta á landsbyggðinni sem kunna að leiða til verri aðstæðna eða verri þjónustu hér og þar á landinu. Ég fagna þeim vilja ráðherra að svo verði ekki, en ég geri ráð fyrir því að (Forseti hringir.) það verði nákvæmlega þetta atriði sem helst verður rætt þegar málið verður tekið til frekari umfjöllunar.