140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er mikilvægt að huga að þessu. Með þessum breytingum mundi fækka í yfirstjórn lögreglunnar en hugsunin er sú að þjónusta á vettvangi komi til með að eflast. Ég gat um það í andsvari fyrr við umræðuna í dag að ég ætlaði að koma nánar inn á lífeyrismál sérstaklega í síðari ræðu minni, sem mér láðist síðan að gera, en það er nokkuð sem við eigum eftir að taka til frekari skoðunar. Það tel ég vera fylgifisk þessa frumvarps eða hljóta að koma til umfjöllunar, en á þessu stigi horfum við fyrst og fremst til þeirra kerfisbreytinga sem hér eru skoðaðar.

Þau varnaðarorð sem hv. þingmaður hafði uppi varðandi landsbyggðina og fækkun starfsmanna tek ég mjög til greina og er alveg sammála þeim. Hugsunin er ekki sú að draga úr mannafla lögreglunnar, þvert á móti að hann komi til með að eflast og nýtast betur til þjónustustarfa.