140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er út af fyrir sig ánægður með að ráðherra lýsi því yfir að þetta eigi ekki að koma niður á þjónustu lögreglunnar. Auðvitað verður ákveðin eðlisbreyting þegar yfirstjórnin færist fjær hinum fámennari byggðum. Það er kannski erfitt að meta það en einhverjar breytingar mun það kalla á og auðvitað er um að ræða fækkun. Ef við tökum bæði þessi frumvörp, lögreglufrumvarpið og frumvarpið sem lýtur að sýslumönnunum, er auðvitað verið að fækka embættum í efra lagi stjórnsýslunnar úr 39 niður í 16, að því er mér sýnist í fljótu bragði. Ég get ekki betur séð en að öll sú fækkun eigi sér stað úti á landi, þannig að maður skilur auðvitað aðstæður, sérstaklega á smærri stöðum þar sem hvert og eitt starf sem flyst burt er ákveðin blóðtaka.

Nóg um það. Ég vona að þær breytingar sem ráðist verður í, hvort sem þær verða nákvæmlega eins og liggur fyrir í þessu frumvarpi eða með einhverjum öðrum hætti. leiði ekki til lakari þjónustu og ég held að það sé ágætt að rifja upp að það verður seint sagt um löggæslu á Íslandi að við séum yfirmönnuð á því sviði. Fjöldi lögreglumanna, svo maður taki það sem dæmi, hefur lítið breyst á síðustu árum, frekar hefur orðið fækkun ef ég man rétt, þannig að þetta er virkilega svið þar sem við getum gert betur og verði um skipulagsbreytingar (Forseti hringir.) að ræða af þessu tagi er um að gera að nýta þær í þeim tilgangi.