140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[17:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi, líkt og félagi minn hv. þm. Birgir Ármannsson, fagna sérstaklega þeim lokaorðum hæstv. ráðherra í ræðu hans að hann mundi ekki leggja sérstaka áherslu á að málinu yrði lokið á þessu vorþingi. Mér fyndist mjög slæmt ef það yrði gert því málið er umfangsmikið og einungis eru eftir 17 þingdagar. Ég fagna þessu því mjög og heyri á hæstv. ráðherra að hann vill vanda til verka og gera þetta vel.

Ég er með nokkrar spurningar. Fyrsta spurningin snýr að verklagi. Það kemur fram í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, og hæstv. ráðherra nefndi það líka í ræðu sinni, að ekki er búið að reikna kostnaðinn af hagræðingunni og ýmsar útfærslur á þessu eru enn ekki tilbúnar og ekki hefur verið lagt í þá vinnu. Fjármálaráðuneytið gagnrýnir þetta eða nefnir þetta í kostnaðarumsögn sinni og segir, með leyfi forseta:

„Það kynni að hafa verið heppilegra í þessu tilliti að vinna verkefnisstjórnar hefði verið framkvæmd áður en lagafrumvarpið kom fram, þannig að fyrir lægi hver ávinningur af breytingum væri og hvernig ráðstafa mætti þeim fjármunum í samhengi við fjárheimildir til málaflokksins á komandi árum. Ekki síst í ljósi þess að nokkuð er síðan að áform um slíka verkefnisstjórn voru lögð fram í frumvarpi á 138. löggjafarþingi 2009–2010 sem ekki náði fram að ganga.“

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er þessi háttur hafður á? Af hverju er ekki fyrst unnið að því að sjá hver ávinningurinn er, hagræðingin, hverjir gallarnir og hverjir kostirnir eru og kanna til hlítar og svo lagt fram lagafrumvarp, (Forseti hringir.) í stað þess að gera þetta svona sem er dálítið eins og í öfugri röð?