140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[18:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að við stefnum náttúrlega að kerfi þar sem fólk í Vestmannaeyjum þarf ekki að fara upp á land eftir þjónustu. Við stefnum að kerfi þar sem eru þjónustustöðvar og þar sem þeim yrði komið fyrir þar sem þjónustunnar er þörf hverju sinni. Við erum að reyna að búa til kerfi þar sem aðgengi að þjónustu er sem allra best. Við erum að reyna að búa til kerfi sem er það öflugt í skrifstofunni, ef þannig má að orði komast, að það geti veitt mér sem þjóðfélagsþegni sem allra besta þjónustu, að ég fái þau vottorð, þau leyfi sem ég er að leita eftir á sem auðveldastan hátt. Þar þarf á sérfræðiþjónustu að halda, þar þarf tæknin að vera til staðar o.s.frv. Við erum líklegri til að geta séð um þetta í stærri einingum en í smærri einingum. Að því stefnum við.

Við viljum líka hafa fleiri lögreglumenn á vettvangi til að svara útkalli og koma borgurunum til hjálpar, draga úr yfirbyggingunni og setja fjármagnið frekar í þjónustustörfin á vettvangi, það er hugsunin í þessu. Síðan er spurningin: Hvað munu þessar kerfisbreytingar kosta? Og það er eðlilegt að þess sé spurt og það þurfum við að gaumgæfa mjög rækilega. Ég hygg að að uppistöðu til verði skammtímakostnaðurinn í biðlaunum og lífeyriskostnaði. Síðan ræðst hitt af því hvað við gerum innan kerfisins. Ríkur aðili á auðveldara með að ráðast í gagngerar breytingar sem hugsanlega skila miklum ávinningi en kosta mikið. Ef við höfum naum fjárráð getum við ekki ráðist í slíkt. Þá verðum við að fara miklu hægar í sakirnar þrátt fyrir þessar kerfisbreytingar.

Ég hygg, eftir þessa umræðu, að við munum ná góðri lendingu. Við erum í reynd held ég öll að tala um það sama. Við viljum öll efla löggæsluna (Forseti hringir.) í landinu og hafa hana sem allra besta og án þess á nokkurn hátt að rýra innviði samfélags okkar og síst á landsbyggðinni.