140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru eðlilegar vangaveltur og spurningar en ég vil leggja áherslu á það varðandi þetta frumvarp eins og varðandi lögreglufrumvarpið að fjárhagslegur ávinningur kemur alltaf til með að byggjast á ákveðnum líkindareikningi. Í tilfelli lögreglulaganna erum við að horfa til biðlauna, við erum að horfa til lífeyrisgreiðslna. Í þessu frumvarpi erum við hugsanlega að horfa til biðlauna. Við vitum ekki alveg hver þau kæmu til með að verða.

Staðreyndin er sú að umsögn fjárlagaskrifstofu er óháð og ætluð fyrir þingið og er ekki endilega alltaf í fullu samræmi við það sem viðkomandi fagráðuneyti gerir ráð fyrir sjálft. Þetta er að sönnu til upplýsingar fyrir þann aðila sem leggur frumvarpið fram en líka fyrir þingið til skoðunar.

Það er ein villa í umsögn fjárlagaskrifstofunnar og er væntanlega til komin vegna þess að menn hafa haft lögreglufrumvarpið í huga. Sagt er að sýslumannsembættin séu 15 en þau eru 24. Þarna er þessu ruglað saman við lögregluumdæmin og er einfaldlega eðlileg villa að því marki sem villur geta talist eðlilegar.

Þetta eru hlutir sem við þurfum að fara betur í saumana á en ég held að við getum ekki og eigum ekki að gera of mikið úr þessu. Þetta verður alltaf líkindareikningur. Það sem við munum hafa fast í hendi nokkurn veginn eru lífeyrisgreiðslurnar og biðlaunagreiðslurnar, hitt er spurningin um faglegan ávinning af þessum kerfisbreytingum, hvort kerfisbreytingin er líkleg til að verða til þess að við verjum hverri krónu á hagkvæmari hátt en við gerðum áður. Ég tel að við munum gera það.