140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þróunin hefur verið sú á undangengnum árum að tiltekin verkefni hafa verið færð til einstakra sýslumannsembætta og ég mun í lokaræðu minni víkja lítillega að verkefnum hvað þetta snertir. Það er ásetningur okkar að reyna að halda áfram á þessari braut.

Aðeins nánar um fjárhagslega ávinninginn og tilkostnaðinn eftir atvikum þá kemur hann til dæmis með að ráðast af því hvað við gerum varðandi þjónustustöðvar. Það er nokkuð sem kemur til með að þróast inn í framtíðina í samráði við sveitarfélögin og með hliðsjón af þeim breytingum sem munu verða í samfélaginu á einstökum svæðum. Þurfum við að hafa þjónustumiðstöð hér eða þar? Hvernig ætlum við að haga þeirri þjónustu? Það komum við til með að vinna í samráði við sveitarfélögin og að sjálfsögðu embættin sjálf.