140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hugsunin er sú að við reynum að máta þessa stjórnsýslu, löggæsluna, sýslumannsembættin, inn í þróun annarrar stjórnsýslu í landinu og þá erum við að horfa til sveitarfélaganna. Samkvæmt sóknaráætluninni sem hefur fengið heitið 20/20, og ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af því heiti en inntakið er ágætt, þá er hugsunin sú að reyna að samþætta þjónustu sýslumannsembættanna, sem sagt handhafa ríkisvalds í héraði, og þjónustu sveitarfélaganna þannig að þetta rími allt saman. Hvar þessi landamæri liggja nákvæmlega kemur hugsanlega til með að verða eitthvað breytilegt í tímans rás. Sveitarfélög hafa tekið breytingum, þeim hefur fækkað eins og ég rakti í framsöguræðu með þessu frumvarpi, þau hafa verið að sameinast jafnvel yfir hefðbundin landamæri — ég nefni þar sveitarfélögin á Norðvesturlandi, síðustu sameiningu — þannig að þarna þarf að mínum dómi einhver sveigja að vera í. En þetta er eitt af þeim atriðum sem er eðlilegt að þingið taki til skoðunar. Það getur ekki verið sáluhjálparatriði á einn veg eða annan, og svo er alls ekki hjá mér, en við hljótum að finna lausn sem er heppileg í þessu efni. Það er sjálfsagt að taka þessar vangaveltur vel til greina.