140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla í héraði.

738. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka ráðherra að nýju fyrir að flytja þetta mál. Ég held að allir sem skoða skipan sýslumannsembætta og þeirra mála sem þar undir heyra hljóti að viðurkenna að fara má yfir og endurskoða fyrirkomulagið. Það fyrirkomulag sem við búum við í dag er ekki fullkomið og um er að ræða fyrirkomulag sem án vafa er hægt að byggja upp með öðrum hætti.

Auðvitað á núverandi skipan sér allnokkra forsögu og ef við værum að koma að þessu borði auðu mundum við vafalaust skipuleggja hlutina með öðrum hætti en nú er. Þarna eru sögulegar aðstæður, þróun embætta o.fl. Það verður auðvitað að taka tillit til aðstæðna eins og þær eru og forsagan. Það er ekki alveg hægt að hanna þetta eins og verið sé að búa til eitthvað kerfi í tómarúmi, það er ekki hægt.

Í því sambandi ber að fagna því að ráðherra skuli velja þá leið, eins og í frumvarpinu til breytinga á lögreglulögum, að taka góðan tíma til undirbúnings og aðlögunar þannig að ekki sé verið að koma með mál inn í þingið sem á að klára fyrir maílok og á síðan að taka gildi 1. september eins og dæmi eru um á þinginu um stórar breytingar sem verið er að leggja fyrir okkur þessa dagana og við erum að taka til umfjöllunar. Ég fagna því að ráðherra nálgist þetta mál af værfærni sem í rauninni felur líka í sér virðingu fyrir viðfangsefninu, bæði því mikilvæga þjónustuhlutverki sem þessi embætti gegna og eins því ágæta fólki sem starfar á þessu sviði. Hvort tveggja er mjög mikilvægt.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna við 1. umr. Í fyrsta lagi slær þetta mig þannig, og það kann að vera að ég sannfærist um annað þegar málinu vindur fram og við höfum skoðað það betur, að verið sé að stíga býsna stórt skref, það er verið að fækka sýslumannsembættum mjög mikið. Þetta hefur þann aðdraganda að það á ekki að taka gildi fyrr en 2015 en engu að síður er breytingin úr 24 niður í átta töluvert mikil. Ég velti fyrir mér hvort betra hefði verið að nálgast þetta með því að fara frekar í svona breytingar í fleiri áföngum. En nóg um það. Ég vildi bara nefna að þetta er töluverð breyting, verið er að tala um að fækka sýslumannsembættum umtalsvert og þó að aðlögunartími sé gefinn er þetta allstór breyting í sjálfu sér. Ég ætla ekki að dvelja lengur við þetta en vildi halda því til haga.

Annað atriði sem ég ætla að nefna snýr að því sem ég hef nefnt í andsvari varðandi umdæmamörk og þess háttar. Það er hárrétt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra við andsvari mínu að umdæmamörk geta þurft að breytast. Umdæmamörk eru ekki eitthvað sem er klappað í stein og á ekki að hrófla við. Engu að síður held ég að við séum ekki endilega að horfa fram á það tíðar breytingar á umdæmum að það sé með einhverjum hætti ómögulegt eða ógerlegt að bera þær undir Alþingi. Ég held að við séum ekki að tala um að það verði farið í umdæmabreytingar árlega eða oft á ári eða eitthvað þess háttar. Ég sé fyrir mér að jafnvel þótt sveigjanleiki verði í þessu og umdæmum verði breytt í samræmi við breyttar aðstæður, breytingar á mörkum sveitarfélaga og þess háttar, þá gerist það ekki með þeim hraða eða svo oft að það sé ómögulegt að koma með það til þingsins. Við þekkjum það frá fyrri tíð að málefni af þessu tagi eru oft tilefni umræðu og jafnvel átaka á þingi og ég held að það sé í sjálfu sér ekki jákvætt að kippa þinginu úr sambandi í þeim efnum jafnvel þó ágætt sé að eiga samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er annað sjónarmið sem ég vildi nefna í þessu sambandi en ég tek svo sem undir með ráðherra að þetta er ekki endilega úrslitaatriði en engu að síður málefni sem ég vildi vekja athygli á í þessari umræðu.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna var að lýsa stuðningi við hæstv. ráðherra eða samhljómi varðandi tilflutning verkefna. Við þekkjum það að átt hefur sér stað tilflutningur verkefna bæði frá dómsmálaráðuneytinu sjálfu og frá undirstofnunum þess til einstakra sýslumannsembætta og ég held að í mörgum tilvikum hafi það verið afar jákvætt. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort unnt sé að færa fleiri verkefni og jafnvel á málefnasviðum annarra ráðuneyta, ef svo má segja, til sýslumannsembætta þannig að hægt verði að auka vægi þeirra því að vissulega eru verkefni sýslumannsembætta mismikil eftir fjölda þeirra borgara sem til þeirra leita og eins mannfjölda á svæðum o.s.frv. Nú eru embættin mjög misstór og verða það trúlega áfram, jafnvel þótt breytingin sem hér er lögð til nái fram að ganga. Þá er um að gera að nýta betur mannskap og aðstæður í þeim embættum sem eru á fámennari svæðum með því að færa þeim verkefni þótt það skuli auðvitað viðurkennt að verkefnin eru misvel fallin til að verða flutt, ef svo má segja. Reynslan sýnir að mörg verkefni sem menn álitu til skamms tíma að þyrftu að vera framkvæmd af ráðuneytinu sjálfu eða stofnunum þess í Reykjavík er jafn vel sinnt af embættum úti á landi og þó að sum þeirra séu töluvert langt frá aðalmannfjöldanum í landinu þá kemur það ekki að sök vegna eðlis þeirra verkefni sem um er að ræða.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að teygja þessa umræðu neitt lengra. Ég vildi strax við upphaf umræðunnar lýsa því að ég tel fyllstu ástæðu til að fara í endurskoðun og athugun á þessum embættum og ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur stigið skref í þá átt. Ég vil þó ekki lýsa yfir stuðningi við efnisatriði þessa frumvarps. Ég tel að það þurfi að skoða betur, hlusta á umsagnaraðila og fara yfir ýmsa þætti í þessu sambandi áður en tekin er afstaða til einstakra liða og einstakra breytinga sem um er að ræða. Það má segja að ég vilji fyrst og fremst lýsa mig jákvæðan í garð frumvarpsins að meginstefnu til en áskilji mér rétt til að hafa skoðanir á einstökum atriðum, styðja eða hafna breytingartillögum o.s.frv., þannig að þrátt fyrir að málið stefni í jákvæða átt eru þó þegar ýmis atriði sem ég rek augun í sem augljóslega þarfnast meiri umræðu og athugunar þótt ekkert sé sagt um hver hin endanlega afstaða verði til þeirra mála.